Þröngvaði hælisleitendum til kynmaka

Svein Ludvigsen, hér á þessari mynd fylkisstjóri Troms árið 2008, …
Svein Ludvigsen, hér á þessari mynd fylkisstjóri Troms árið 2008, hefur verið sakfelldur fyrir að þröngva hælisleitendum til kynmaka við sig. AFP

Svein Ludvigsen, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra Noregs, hefur verið dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir að misnota þrjá unga hælisleitendur á árunum 2011 til 2017. Fórnarlömb hans eru í dag á aldrinum 25-34 ára gamlir.

Dómurinn í þessu umtalaða sakamáli féll í gær, en niðurstaðan gerð opinber af saksóknurum í Norður-Troms í dag. Lögmaður Ludvigsen segir að hann ætli sér að áfrýja niðurstöðunni.

Ludvig­sen, sem er 72 ára gamall, var þingmaður Hægri­flokks­ins á norska Stórþing­inu árin 1989 til 2001, sjáv­ar­út­vegs­ráðherra í ann­arri rík­is­stjórn Kj­ell Magne Bondevik 2001 til 2005 og svo fylk­is­stjóri Troms árin 2006 til 2014.

Eins og mbl.is fjallaði ítarlega um í júnímánuði var Ludvigsen gefið að sök að hafa margþröngvað þrem­ur ungum mönn­um sem leituðu hælis í landinu til kyn­ferðismaka á hót­el­um í Ósló, fylk­isþings­hús­inu í Tromsø, sum­ar­bú­stað Ludvig­sen í And­selv og bif­reið á ótil­greind­um stöðum, ým­ist gegn greiðslu 15.000 norskra króna, lof­orðum um aðstoð við að fá hæl­is­beiðnir mann­anna samþykkt­ar eða hót­un­um um að hann gæti auðveld­lega komið í veg fyr­ir að þær yrðu samþykkt­ar.

Hann hefur neitað sakargiftunum, en viðurkenndi þó að hann hefði haft kyn­mök við einn hæl­is­leit­end­anna á hótelherbergi í Ósló með beggja vilja. Ludvig­sen sagðist hafa verið í sturtu þegar hæl­is­leit­and­inn knúði dyra og svo hefði „eitt leitt af öðru“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert