Kjos kastar handklæðinu

Bjørn Kjos lét af störfum sem forstjóri Norwegian í morgun.
Bjørn Kjos lét af störfum sem forstjóri Norwegian í morgun. AFP

„Enginn sem kominn er yfir sjötugt ætti að stjórna flugfélagi. Minn tími er kominn.“ Þetta sagði Bjørn Kjos, fráfarandi forstjóri norska flugfélagsins Norwegian, þegar hann lét af störfum í morgun eftir 17 ár í forstjórastólnum. 

Einhverjum þykja þetta greinilega góð tíðindi enda tóku hlutabréf í Norwegian stökk eftir tilkynningu Kjos og hafa hækkað um 3,4% í norsku kauphöllinni það sem af er morgni.

Kjos hefur ekki verið óumdeildur í starfi og er skemmst að minnast þess þegar fyrirtæki hans greiddi taílenskum áhöfnum í Evrópu- og Ameríkuflugi taílensk laun sem samsvöruðu um 40.000 íslenskum krónum á mánuði. Norska ríkisútvarpið NRK komst yfir ráðningarsamninga þessa efnis í október 2013 og birti þá sem varð til þess að bandarísk flugmálayfirvöld hótuðu að engin flugvél Norwegian fengi að lenda innan bandarískrar lögsögu fyrr en bætt yrði úr grímulausum félagslegum undirboðum gagnvart taílensku áhöfnunum og gaf Kjos þá eftir.

Kjos hefur þó flogið gegnum ýmis boðaföll með félag sitt og segja greinendur viðskiptablaðsins Dagens Næringsliv stöðu félagsins ótrúlega góða eftir birtingu afkomutalna annars ársfjórðungs sem þykja koma á óvart þrátt fyrir kyrrsetningu MAX-vélanna sem reyndist Ameríkuflugi Norwegian þungbær.

Fjármálastjóri Norwegian, Geir Karlsen, sest í forstjórastólinn, að minnsta kosti í bili, en Kjos, sem er 72 ára gamall, hyggst þó ekki hverfa alfarið á braut heldur kemur áfram að rekstri félagsins sem ráðgjafi stjórnar þess.

„Norwegian er ekki mitt barn, það er barn þeirra 11.000 góðu starfsmanna sem þar starfa,“ sagði Kjos að skilnaði á blaðamannafundinum í morgun.

NRK

Dagens Næringsliv

E24

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert