Nýtt norskt þrætuepli

Rafhlaupahjól, nýjasta samgöngubyltingin og um leið nýjasta þrætueplið í Noregi …
Rafhlaupahjól, nýjasta samgöngubyltingin og um leið nýjasta þrætueplið í Noregi sem einhverjir fagna ef til vill eftir alla vegtollaumræðuna. Tæplega 200 manns hafa slasast, þar af 12 alvarlega, á hjólum þessum frá 1. apríl að telja. Ljósmynd/Elbil24

„Óeirðaástand ríkir í Ósló. Fullorðið fólk þýtur um götur borgarinnar á rauðum og grænum hlaupahjólum. Leigubílstjórar eru æfir, blöðin færa fréttir af líkamstjóni. Stjórnmálamenn klóra sér í höfðinu og velta því fyrir sér hvernig best sé að setja reglur um fyrirbærið. Hjálmar? Hraðatakmarkanir? Stæði? Gjöld? Banna þetta bara?“

Þetta skrifar Tone Sofie Aglen, álitsgjafi og pistlahöfundur norska dagblaðsins VG, í umfjöllun sinni um nýjasta æði, bitbein, þrætuepli og skaðvald norsku þjóðarinnar, rafknúin hlaupahjól sem allir virðast hreinlega vera búnir að útvega sér og svífa á þessum tækjum um götur og torg, fullir sem edrú, ungir sem aldnir.

Tölfræði heilbrigðiskerfisins gefur vissulega tilefni til að einhvers konar reglur verði settar um farartæki þessi. Tímabilið 1. apríl til 30. júní hefur 181 slys tengt rafhlaupahjólum verið skráð í Ósló einni, að meðaltali tvö tilvik á sólarhring. Í júnímánuði einum leituðu 107 notendur slíkra farartækja á heilsugæslu vegna líkamstjóns sem rætur átti að rekja til rafknúinna hlaupahjóla, 12 alvarleg slys hafa orðið og er þá átt við mjaðmar-, úlnliðs- og handleggsbrot auk höfuðáverka.

Karlmenn 66% slasaðra

Kynjadreifing slasaðra í júní var 66 prósent karlmenn, hitt konur, segir í nýútgefnum tölum Háskólasjúkrahússins í Ósló. Borgarfulltrúar Óslóar líta bænaraugum til Jon Georg Dale samgönguráðherra og biðja um reglur. Lögreglan segir aðeins tímaspursmál hvenær fyrsta banaslysið verður og bendir á banaslys í Helsingborg í Svíþjóð í lok maí þar sem 27 ára gamall maður á rafhlaupahjóli lenti í hörðum árekstri við bifreið og galt fyrir með lífi sínu.

Bård Morten Johansen, ráðgjafi Trygg Trafikk, samtaka um umferðaröryggismál í Noregi, segir engar reglur gilda um rafhlaupahjólanotkun fólks í vímu en hjólin eru orðin vinsælt hjálpartæki til að komast heim af galeiðunni eftir nótt á börunum í miðbæ Óslóar og velur mörg barflugan rafhlaupahjólið fremur en leigubíl sem þegar til lengri tíma er litið heggur dýpra í pyngjuna en leigja má rafhlaupahjól í sjálfsafgreiðslu allan sólarhringinn í Ósló fyrir 10 króna upphafsgjald (148 ISK) og svo tvær krónur á mínútu (30 ISK) eftir það.

Egil Jørgen Brekke, deildarstjóri almennrar deildar lögreglunnar í Ósló segir þetta ekki alls kostar rétt hjá Johansen. „Þarna gildir sama reglan og um akstur bifreiða, þú mátt ekki hafa meira en 0,2 prómill vínanda í blóðinu,“ segir Brekke. Hann segir 21. grein norsku umferðarlaganna að sjálfsögðu ná yfir rafhlaupahjól en þar segir að enginn megi stjórna eða reyna að stjórna ökutæki sé ástand viðkomandi þannig að hann geti ekki stjórnað tækinu á öruggan hátt.

„Hjól er ökutæki,“ segir Brekke en getur þó ekki bent á dæmi þess að lögregla hafi sektað ölvaða rafhlaupahjólaknapa eða svipt þá ökuskírteini sínu fyrir notkun slíkra farskjóta í ölvunarástandi. Það gerði lögreglan í Kaupmannahöfn í Danmörku hins vegar um síðustu helgi þegar farið var í átak gegn ölvuðum rafhlaupahjólurum og 28 slíkir kærðir fyrir að hjóla með Bakkusi í höfuðborginni.

„Kerfisbundin klikkun“

Flestir hafa einhverja skoðun á þessum nýja samgöngumiðli Norðmanna og fleiri vestrænna þjóða og er uppistandarinn Christoffer Schjelderup í Bergen þar engin undantekning. Hann kallar rafhlaupahjólin „kerfisbundna klikkun“ (n. idioti satt i system). „Þegar hjálmlausir „hipsterar“ fara að þjóta um Strømgaten [gata í Bergen] á rafhlaupahjólum eigum við eftir að missa heilu árgangana af fólki með X. phil-gráður. Hlaupahjól eru fyrir börn. Börn með hjálma. Og drifkrafturinn á ekki að vera annar en fóturinn sem knýr þig áfram,“ skrifar Schjelderup í pistli á NRK Ytring, lesendabréfasíðu norska ríkisútvarpsins.

Norskir fjölmiðlar láta ekki sitt eftir liggja við að undirstrika nauðsyn þess að reglum verði komið yfir hina löglausu iðju rafhlaupahjólanotenda og benda á banaslys í London og Svíþjóð auk umfjöllunar um sjötuga norska konu, Gerd-Helene Hansen, sem var hreinlega hjóluð niður og lærbrotin á tónleikum í Ósló um miðjan júní og missti af sumarfríinu sínu.

VG bendir á að borgaryfirvöld í Helsingborg hafi sett reglur sem takmarka notkun rafhlaupahjóla um kvöld og nætur þar eftir banaslysið aðfaranótt 31. maí, en enn sem komið er þegja norskir ráðherrar og þingmenn þunnu hljóði um nýjustu samgöngubyltinguna, skaðvaldinn og götutískuna, fyrirbæri sem í fyllingu tímans gæti þó orðið álíka umdeilt og vegtollarnir óvinsælu sem vakið hafa viðsjár með norskum ökumönnum og orðið kveikjan að stjórnmálahreyfingum sem bjóða fram lista sína í sveitarstjórnarkosningum haustsins með það markmið að leggja niður skattheimtukerfi sem einhverjir hafa kallað rán um hábjartan dag en aðrir segja sjálfsagða leið til að draga úr bílaumferð og kolefnislosun í helstu þéttbýliskjörnum Noregs. Eins og rafhlaupahjólin gætu reyndar auðveldlega gert líka.

VG (pistill Tone Sofie Aglen)

VG II (neyðarkall til samgönguráðherra)

VG III (hjóluð niður á tónleikum)

NRK

Aftenposten

Dagbladet (28 manns kærðir fyrir ölvunarakstur á rafhlaupahjóli í Danmörku)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert