Bin Sultan í Ósló?

Yas liggur makindalega við festar við Aker-bryggju. Jafnvel Ráðhúsið í …
Yas liggur makindalega við festar við Aker-bryggju. Jafnvel Ráðhúsið í Ósló virðist smátt við hlið fleysins. Skjáskot/Myndskeið ABC Nyheter

Vegfarendur Aker-bryggju í Ósló í kvöld ráku upp stór augu þegar að bryggjunni lagðist 141 metra löng lúxussnekkja, sú tólfta stærsta þessa heims, hafa norskir fjölmiðlar eftir vefsíðum um slík fley. Reynist hingað vera komið fleyið Yas, skráður eigandi Hamdan bin Zayed bin Sultan Al Nahyan, umdæmisstjóri Abu Dhabi í Sameinuðu arabísku furstadæmunum.

Bin Sultan heitir reyndar réttu nafni حمدان بن زايد بن سلطان آل نهيان‎ og er fæddur árið 1963, sonur sjeiksins Khalifa bin Zayed bin Sultan Al Nahyan, forseta Sameinuðu arabísku furstadæmanna, eða خليفة بن زايد بن سلطان آل نهيان‎ eins og það er réttilega stafsett.

Norskir fjölmiðlar hafa keppst við að greina frá skipskomunni enda algengara að ferjur sem flytja farþega sína frá Aker-bryggju yfir til Nesodden, Oscarsborg og Bygdøy leggist þarna að bryggju við litla athygli.

Smíðuð á grunni hollenskrar freigátu

Mastra jór þessi mun metinn til 22 milljarða íslenskra króna og hefur rými fyrir 60 gesti og 56 starfsmenn, nánast sama fjölda þessara hópa. Var snekkjan smíðuð á grunni hollenskrar freigátu í ADM Shipyards-skipasmíðastöðinni í Abu Dhabi og stóð verkið frá 2011 til 2015.

Eitthvað fæst fyrir 22 milljarða.
Eitthvað fæst fyrir 22 milljarða. Skjáskot/Myndskeið ABC Nyheter

 

Enginn veit þó hverjir farþegarnir eru, hvort sjálfur حمدان بن زايد بن سلطان آل نهيان, eða bin Sultan, heiðri Ósló með nærveru sinni þetta þriðjudagskvöld eða hvert erindið er til Óslóar af öllum stöðum, en vitað er að Yas lá við festar í Dubrovnik í Króatíu í júní.

Viðskiptablaðið Dagens Næringsliv getur þó ekki stillt sig um að skjóta því inn í lok fréttar sinnar að Yas verði „eins og litli bróðir“ þegar norski milljarðamæringurinn Kjell Inge Røkke, eigandi iðnaðarveldisins Aker ASA, hafi látið ljúka smíði sinnar snekkju, „Rev“, þeirrar stærstu í heimi.

Skjáskot af skjáskoti (n. skjermdump) Dagens Nyheter af Refnum sem …
Skjáskot af skjáskoti (n. skjermdump) Dagens Nyheter af Refnum sem norski milljarðamæringurinn Kjell Inge Røkke, eigandi iðnaðarveldisins Aker ASA, hefur í smíðum og ku verða stærsta lystisnekkja heims þegar þar að kemur. Skjáskot/Skjáskot Dagens Næringsliv

 

ABC Nyheter

VG

DN

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert