Létust sama dag eftir 71 árs hjónaband

Herbert og Marilyn voru saman í röska sjö áratugi en …
Herbert og Marilyn voru saman í röska sjö áratugi en á föstudag var komið að leiðarlokum og þá kvöddu þau bæði. Skjáskot úr viðtali við hjónin í fyrra

Bandarísk hjón létust á föstudag, með einungis tólf klukkustunda millibili, eftir 71 árs hjónaband. Sameiginleg jarðarför þeirra var haldin á mánudag.

CNN fjallar um andlát þeirra Herberts og Marilyn DeLaigle, en þau voru 94 og 88 ára er þau létust bæði á föstudag eftir rúma sjö áratugi saman.

Í gegnum árin höfðu þau eignast sex börn, 16 barnabörn, 25 barnabarnabörn og þrjú barnabarnabarnabörn, en ástarsaga þeirra byrjaði er Herbert tók eftir Marilyn á kaffihúsi í bænum Waynesboro í Virginíuríki.

„Ég náði loksins að manna mig upp í að spyrja hana hvort hún vildi fara á stefnumót með mér einhvern daginn,“ sagði Herbert í samtali við staðarmiðilinn WRDW/WAGT á síðasta ári. Hann náði að sannfæra hana um að koma með sér í bíó og ári síðar fór hann á skeljarnar.

CNN hefur eftir Matthew Lorber, geðlækni við Lenox Hill-spítala í New York, að ekki sé óalgengt að hjón láti lífið með skömmu millibili eftir að annar aðilinn fellur frá.

„Brotin hjörtu eru alvöru fyrirbæri,“ segir Lorber og lýsir því sem svo að þegar fólk fái hörmulegar fréttir losni gríðarlegt magn streituhormóna inn í blóðstreymið og þau nái svo til hjartans, sem geti leitt til hjartabilunar, sem líkist mjög hjartaáfalli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert