Umdeildur klerkur í gæsluvarðhald

Mullah Krek­ar sést hér ræða við blaðamenn í Osló.
Mullah Krek­ar sést hér ræða við blaðamenn í Osló. AFP

Klerkurinn Mullah Krek­ar var í dag settur í gæsluvarðhald í Noregi eftir að hann var dæmdur á Ítalíu fyrir „hryðjuverkasamsæri“ að því er fram kemur í máli lögfræðings hans við AFP fréttastofuna.

Krek­ar, sem er Kúr­di frá Írak, hef­ur verið flóttamaður í Nor­egi frá 1991 en hef­ur ekki fengið norsk­an rík­is­borg­ara­rétt. Ítölsk yf­ir­völd saka hann um að leiða sam­tök­in Rawti Shax, sem tal­in eru tengj­ast víga­sam­tök­in Ríki íslams. 

Krekar var handtekinn í Osló á mánudag eftir að alþjóðleg handtökuskipan var gefin út á hendur honum. Dómari í norsku höfuðborginni úrskurðaði hann í dag í fjögurra vikna gæsluvarðhald.

Ítalska dómsmálaráðuneytið sagði norskum fjölmiðlum að þarlend yfirvöld myndu fara fram á að Krekar yrði framseldur til Ítalíu.

Það gæti hins vegar tekið einhvern tíma en lögfræðingur Krekar segir að dómnum á Ítalíu verði áfrýjað. Þar var Krekar, að honum fjarstöddum, dæmdur til 12 ára fangelsisvistar fyrir að leiða Rawti Shax.

Norskur lögmaður Krekar, Brynjar Meling, sagði í gær að skjólstæðingur hans neitaði því og að hann hefði engin tengsl við Ríki íslams. 

Krek­ar hef­ur átt framsal yfir höfði sér allt frá ár­inu 2003 eft­ir að norsk yf­ir­völd fyr­ir­skipuðu hon­um að fara úr landi þar sem hann væri ógn við þjóðarör­yggi. Þrátt fyr­ir að hann verði fram­seld­ur til Ítal­íu er lagt bann við því í norsk­um lög­um að hann verði fram­seld­ur til Írak því þar er hætta á að hann verði dæmd­ur til dauða.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert