WHO lýsir yfir neyðarástandi

Konur á leið frá Rwanda til Lýðveldisins Kongó í gær.
Konur á leið frá Rwanda til Lýðveldisins Kongó í gær. AFP

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur lýst yfir neyðarástandi vegna ebólufaraldursins sem hefur geisað í Lýðveldinu Kongó í um ár. Það er sjaldgæft að WHO lýsi slíku yfir og ber vitni um alvarleika faraldursins.

Fram til gærdagsins hafði ebólufaraldurinn í Lýðveldinu Kongó, sem hefur geisað í um ár, verið bundinn við strjálbýlli svæði. Í gær lést hins vegar ebólusjúklingur í borginni Goma. Sá var prestur sem hafði verið í borginni Butembo í norðausturhluta Kongó. Það er eitt af þeim svæðum þar sem ebólufaraldurinn hefur náð mikilli útbreiðslu. 

„Það er tími til kominn að heimurinn taki eftir,“ sagði Tedros Adhanom Ghebreyesus, yfirmaður hjá WHO, í yfirlýsingunni. Einungis fjórum sinnum áður hefur ofannefndu ástandi verið lýst yfir, meðal annars vegna svínaflensufaraldursins árið 2009, ebólufaraldursins í V-Afríku 2014 og vegna zika-veirunnar 2016.

Ebólufaraldurinn er næstmannskæðasti faraldur sem hefur herjað á mannkynið. Vonir voru bundnar við að auðveldara yrði að ná að hefta útbreiðslu ebólusmita með nýju bóluefni. 

Talið er að um 160.000 manns hafi þegar verið bólusett gegn ebólu. Hins vegar hafa 1.600 manns látist í Kongó á tæpu ári af um 2.500 manns sem hafa greinst með veiruna. Ebóla er bráðsmitandi og deyr um helmingur þeirra sem sýkjast af veirunni.   

Fjöldi alþjóðasamtaka fundaði um ástandið í Genf í gær. Þar var meðal annars rætt um að breyta þyrfti um aðferðir sem eru notaðar til að reyna að ráða niðurlögum veirunnar. 

WHO hefur hins vegar varað við því að ríki nýti sér neyðarástandið til að loka landamærum sínum i skjóli ástandsins. Það myndi hafa neikvæð áhrif á fjölmarga íbúa landanna.  

Hendurnar á bifhjólamanni hreinsaðar við komuna til Lýðveldisins Kongó.
Hendurnar á bifhjólamanni hreinsaðar við komuna til Lýðveldisins Kongó. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert