Dæmdir til dauða

Samsett mynd af þeim Rachid Afatti (t.v.), Ouziad Younes (f.m) …
Samsett mynd af þeim Rachid Afatti (t.v.), Ouziad Younes (f.m) og Ejjoud Abdessamad (t.h.) sem í dag hlutu dauðadóm í Salé. Verði honum fullnægt verður það í fyrsta sinn síðan 17. ágúst 1993 sem slíkt gerist í Marokkó. Verjendur boða áfrýjun. AFP

Þrír menn, Rachid Afatti, Ouziad Younes og Ejjoud Abdessamad, voru í morgun dæmdir til dauða fyrir að myrða skandinavísku háskólastúdentana Maren Ueland frá Noregi og Louisu Vesterager Jespersen á hrottalegan hátt í Atla-fjöllunum í Marokkó þar sem lík þeirra fundust mánudaginn 17. desember í fyrra.

Alls hlutu 19 aðrir menn, sem teljast samverkamenn aðalmannanna, fimm til 30 ára fangelsi þegar rétturinn kom saman klukkan 10 í morgun að íslenskum tíma.

Einn maður hlaut auk þess lífstíðarfangelsi fyrir sinn þátt, en skilríki hans fundust á vettvangi ódæðisins. Hinn spænsk-svissneski Kevin Zoller Guervos, sem dæmdur var fyrir að veita hópnum tilsögn í framkvæmd hryðjuverka, hlaut 20 ára dóm.

„Enginn guð er til nema allah“

Jaber Rahal, verjandi eins hinna dæmdu, sagði í viðtali við marokkóska fréttamiðilinn Medias24 að öllum dómunum yrði áfrýjað til næsta dómstigs. Dauðadómi hefur ekki verið framfylgt í Marokkó síðan árið 1993 þegar Mohamed Tabet, alræmdasta nauðgara í sögu landsins, var stillt upp fyrir framan aftökusveit snemma morguns 17. ágúst það ár og hann skotinn.

„Enginn guð er til nema allah og spámaður hans er Múhameð,“ sagði Ejjoud Abdessamad, einn aðalmannanna dauðadæmdu, „megi guð fyrirgefa mér.“ Meðal gagna við rekstur málsins voru myndskeið þar sem mennirnir ákölluðu guð sinn auk þess að sverja hryðjuverkasamtökunum Ríki íslams hollustu sína.

Ragnar Falck Paulsen, lögmaður fjölskyldu Marenar Ueland, hefur samhliða refsimálinu rekið skaðabótamál fyrir Héraðsdómi Salé þar sem marokkóskur lögmaður flytur málið og komst dómurinn að þeirri niðurstöðu að hinir dæmdu skyldu greiða Ueland-fjölskyldunni í Rogaland í Vestur-Noregi samtals tvær milljónir marokkóskra díram, sem samsvarar 1,8 milljónum norskra króna, 26,4 milljónum íslenskra króna, í þjáningar- og miskabætur.

NRK

VG

Aftenposten

TV2

Dagbladet

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert