Flugdólgur fékk 13 milljóna reikning

Farþegaþota frá Jet2 á flugvelli í Bretlandi. Mynd úr safni.
Farþegaþota frá Jet2 á flugvelli í Bretlandi. Mynd úr safni. Ljósmynd/Wikipedia.org/54north

Bresk kona sem reyndi að opna dyr farþegaþotu í miðju flugi milli Bretlands og Tyrklands hefur nú fengið reikning upp á 85.000 pund (um 13,3 milljónir kr.) frá Jet2-flugfélaginu.

Hegðun konunnar, Chloe Haines, olli því að tvær þotur breska flughersins voru fengnar til að fylgja vélinni aftur til Stansted-flugvallar og sendi flugherinn flugfélaginu 85.000 punda reikning fyrir aðstoðina. 

Flugfélagið hefur nú áframsent reikninginn á Haines sem er 25 ára. Guardian segir flugfélagið saka hana um fjölda brota, m.a. um að hafa verið „ofbeldisfull, meinyrt og að hætta hafi stafað af hegðun hennar“.

Þurftu áhöfn og farþegar að hjálpast að við að halda Haines á meðan herflugvélarnar fylgdu vélinni aftur til Stansted, en vélarnar ollu hljóðhöggbylgju er þær flugu á miklum hraða til móts við farþegaþotuna.

Að sögn Steve Heapy, forstjóra Jet2.com og Jet2holidays, er mál Haines alvarlegasta dæmi um flugdólg sem flugfélagið hefur orðið fyrir.

 „Hún þarf nú að sæta afleiðingum gjörða sinna og við munum af fullri hörku sækja þann kostnað sem þessi breyting á áætlunarfluginu olli, líkt og við gerum við alla flugdólga,“ sagði Heapy.

Auk sektarinnar var Haines bannað að fljúga aftur með Jet2 það sem eftir er.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert