Instagram hættir að sýna læk

Instagram er að mæta neikvæðri umræðu um pressuna sem fylgir …
Instagram er að mæta neikvæðri umræðu um pressuna sem fylgir lækfjöldanum.

Instagram markar tímamót í dag með tilraunum í Ástralíu og Japan. Fyrirtækið hyggst taka út fjölda „læka“ við hverja mynd, þannig að talan verði ósýnileg öllum öðrum en þeim sem birti myndina.

Hér um bil svona kemur Instagram til með að líta …
Hér um bil svona kemur Instagram til með að líta út en ólíklega verður hvít gjáin milli „and“ og „others“ eins breið. Skjáskot/Instagram

Pælingin er að minnka pressuna, sem eins og vitað er getur verið nokkur, ekki síst hjá ungmennum. Þegar fólk mun fletta í gegnum Instagram upp frá þessu mun það aðeins sjá: „Jón Jónsson lækaði þessa og einnig aðrir“ í staðinn fyrir „Jón Jónsson lækaði þessa og 59 aðrir.“

Enn verður þó hægt að smella á „others“ og telja þá sem hafa látið sér myndina vel lynda. Þeir sem eru sérstaklega uppteknir að tölfræðinni geta því enn aflað hennar með þeim hætti. 

Um sinn er þetta aðeins gert á nefndum stöðum en ekki liggur fyrir hvort menn ætli að prófa sig áfram með þetta í Evrópu. Svipuð tilraun hefur verið gerð í Kanada þar sem yfirlýst markmið var að róa taugarnar hjá samþykkisþurfi ungmennum. Það gaf góða raun, að sögn BBC.

Talsmenn Instagram í Ástralíu hafa haft mörg orð um hve jákvæð áhrif þetta gæti komið til með að hafa, um hvernig vonast er til þess að breytingin, sem enn um sinn er tímabundin, fái fólk til þess að „tengjast“ meira en keppast minna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert