„Ósammála“ stuðningsmannakórnum

Trump sagði að honum hefði litið „eilítið illa“ þegar að …
Trump sagði að honum hefði litið „eilítið illa“ þegar að stuðningsmenn hans hófu upp raust sína og vildi meina að hann hefði reynt að þagga niður í söngnum. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði í dag að hann hefði ekki verið ánægður með hávær hróp stuðningsmanna sinna á fjöldafundi í Norður-Karólínu í gær, þess efnis að senda ætti Ilhan Omar, þingkonu Demókrataflokksins, „til baka“ til Sómalíu.

Samkvæmt frétt BBC sagði Trump við blaðamenn í Hvíta húsinu í dag að hann væri „ósammála“ því sem stuðningsmenn hans kyrjuðu á fjöldafundinum í gær. Hann fór þó ekki nánar út í það hverju hann væri ósammála.

Trump sagði að honum hefði litið „eilítið illa“ þegar að stuðningsmenn hans hófu upp raust sína og vildi meina að hann hefði reynt að þagga niður í söngnum.

„Ég byrjaði að tala mjög fljótlega, en þetta fór snöggt af stað eins og þið tókuð líklega eftir,“ sagði Trump og má af orðum hans ráða að hann telji sig ekkert hafa getað gert til þess að hemja stuðningsmannakórinn.

Omar er bandarískur ríkisborgari sem kom sem flóttamaður frá Sómalíu með fjölskyldu sinni er hún var á barnsaldri. Trump hefur sjálfur sagt að hún, auk þriggja annarra þingkvenna demókrata, sem reyndar allar fæddust í Bandaríkjunum utan Omar, ættu að „fara heim“, séu þær ósáttar í Bandaríkjunum.

Ummæli Trump hafa verið harðlega gagnrýnd, bæði af bandarískum stjórnmálamönnum úr báðum flokkum og af nokkrum fjölda þjóðarleiðtoga, meðal annars Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert