Vötn Finnlands ekki óteljandi

Päijänne, annað stærsta vatn Finnlands, stendur undir um 3,5% af …
Päijänne, annað stærsta vatn Finnlands, stendur undir um 3,5% af flatarmáli vatns í landinu. Ljósmynd/Joonas Lyytinen

Lengi hafa vötnin í Finnlandi verið talin jafnmörg hólunum í Vatnsdal og eyjunum á Breiðafirði, það er að segja óteljandi. En svo er ekki raunin. Nú hafa landmælingar Finnlands lokið áralangri talningu sinni á vötnum landsins, og reyndust þau 168.000 talsins.

Hér eru reyndar aðeins talin vötn sem ná hálfum hektara á stærð, en það eru 5.000 fermetrar sem jafngildir stærð fernings með hliðarlengd upp á tæpan 71 metra, nú eða hrings með þvermálið 80 metrar. Sagt er frá afrekinu á HBL, miðli sænskumælandi Finna.

Verkefnið reyndist ekki auðvelt, enda skilgreiningaratriði hvenær vötn falla saman og hvenær vatn er vatn. Flatarmál Finnlands er um 338 þúsund ferkílómetrar, á við þrjú Íslönd, og vatn rúm tíund þess. Áður hafði verið áætlað að um 57.000 vötn stærri en einn hektari væru á landinu. Spennandi verður að sjá hvort vísindamenn haldi áfram að færa sig neðar og reyna að telja minni vötn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert