Breskt olíuskip í haldi Írana

Stena Impero var tekið yfir af írönskum hermönnum í dag …
Stena Impero var tekið yfir af írönskum hermönnum í dag og er nú á leið til hafnar í Íran. Ljósmynd/Stena Bulk

Íranski herinn, byltingarverðirnir svonefndu, tóku í dag yfir breska olíuskipið Stena Impero, sem nú siglir í átt til hafnar í Íran. Þetta segja talsmenn byltingarvarðanna í samtali við ríkisfjölmiðil þar í landi. Fram kemur á vef Sky News að útgerð skipsins, Stena Bulk, nái ekki neinu sambandi við skipið.

Eigendur þess segja í yfirlýsingu að í dag hafi óþekktir bátar og þyrla nálgast skipið þar sem það var á siglingu um Hormuz-sund, á alþjóðlegu hafsvæði. Samkvæmt yfirlýsingunni eru 23 í áhöfn Stena Impero.

Samkvæmt frétt BBC er breska utanríkiráðuneytið að vinna í því að kynna sér málavexti og þá hefur Cobra-nefndin, neyðarnefnd breskra stjórnvalda, verið kölluð saman til fundar.

Svara Bretum í sömu mynt

Bresk stjórnvöld kyrrsettu íranskt olíuskip við Gíbraltar 4. júlí og hafa Íranir í kjölfarið reynt að svara í sömu mynt og krafist þess að skipið, Grace 1, verði leyft að halda þaðan.

Bretar hafa aukið viðbúnaðarstig sitt á siglingaleiðinni um Ómanflóa upp í hæsta stig, en fyrir rúmri viku reyndu íranskir strandgæslubátar að taka yfir annað breskt skip, en hættu við eftir að bresk freigáta sem veitti olíuskipinu fylgd um flóann beindi að þeim byssum sínum.

Frétt Sky News

Frétt BBC

Flutningaskipið Grace 1 er kyrrsett við Gíbraltarhöfða.
Flutningaskipið Grace 1 er kyrrsett við Gíbraltarhöfða. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert