Flokkur grínistans með 44%

Zelensky ræddi við stuðningsfólk flokks síns í höfuðstöðvum hans.
Zelensky ræddi við stuðningsfólk flokks síns í höfuðstöðvum hans. AFP

Samkvæmt útgönguspám vegna þingkosninga í Úkraínu vinnur flokkur Volodímír Selenskí, forseta Úkraínu, stórsigur og getur flokkurinn náð meirihluta á þingi með stuðningi eins annars flokks.

Selenskí sigraði forsetakjör í apríl, en hann hefur heitið miklum umbótum í landinu og að berjast gegn spillingu.

Atkvæði talin í Úkraínu í dag.
Atkvæði talin í Úkraínu í dag. AFP

Samkvæmt spánum fær flokkur forsetans, Þjónn fólksins, 44% atkvæða, mun meira en hinir fjórir flokkarnir sem ná meiru en 5% og komast þar af leiðandi á þing. Eftir lokun kjörstaða klukkan fimm síðdegis að íslenskum tíma sagði Selenskí að hann myndi ræða við flokkinn Röddina sem leiddur er af rokkstjörnunni Svatóslav Vakarchuk. „Það hefur verið ætlun mín frá því áður en kosningarnar hófust,“ sagði hann.

Von er á niðurstöðum kosninganna innan skamms, en hér að neðan má sjá viðbrögð forsetans við útgönguspánni í myndbandi blaðamanns BBC í Rússlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert