Framleiðsla 737 MAX undirfjármögnuð

737 MAX-flugvélar hafa verið kyrrsettar úti um allan heim síðan …
737 MAX-flugvélar hafa verið kyrrsettar úti um allan heim síðan í mars. AFP

Fyrrverandi verkfræðingur hjá bandaríska flugvélaframleiðandanum Boeing segir að framleiðsla á 737 MAX 8-flugvélunum hafi verið undirfjármögnuð og stöðugur þrýstingur hafi verið settur á starfsmenn að halda kostnaði í lágmarki. Flugvélarnar hafa verið kyrrsettar síðan í mars eftir tvö flugslys þar sem 346 manns létust.

Verkfræðingurinn fyrrverandi, Adam Dickson, starfaði hjá Boeing í þrjá áratugi og fór fyrir hópi verkfræðinga við framleiðslu 737 MAX-vélanna. Í sjónvarpsþættinum Panorama á BBC segir hann að fjármagn hafi skort til að sinna framleiðslunni á fullnægjandi hátt.

„Það var stöðugur þrýstingur. Verkfræðingum voru sett markmið til að lækka framleiðslukostnað um ákveðna fjárhæð,“ sagði hann og bætti því við að verkfræðingar hafi einnig fengið þau fyrirmæli að gera minna úr nýjum eiginleikum vélanna og flokka breytingar á hönnun flugvélanna sem „minni háttar breytingar“ frekar en „meiri háttar breytingar“ svo bandarísk flugmálayfirvöld (FAA) færu ekki í saumanna á þessum breytingum.

Með því hafi Boeing komið í veg fyrir að FAA hafi sinnt öryggisskoðunum á fullnægjandi hátt. „Fjöldskylda mín flýgur ekki 737 MAX-vél. Það er skelfilegt að horfa upp á svona stór slys vegna hugbúnaðar sem virkaði ekki,“ segir hann.

Boeing neitar sök

Forsvarsmenn Boeing hafa þvertekið fyrir ásakanir Dickson og segja ummæli hans röng. „Við höfum alltaf staðið við okkar gildi um öryggi, gæði og heilindi,“ segir í svari frá Boeing.

737 MAX eru mest seldu vélar í sögu Boeing og hafa fimm þúsund slíkar verið pantaðar af flugfélögum frá árinu 2011 þegar Boeing kynnti hönnun þeirra fyrst. Fyrsta farþegaflug 737 MAX-flugvélar átti sér stað árið 2017.

Síðan árið 2013 hefur Boeing greitt út 17 milljarða dollara arð til hluthafa sinna og eytt 43 milljörðum í að kaupa hlutabréf í sjálfu sér sem hefur hjálpað til við að þrefalda verðmæti hlutafjár fyrirtækisins. Forstjórinn Dennis Muilenberg hefur fengið rúmlega 70 milljónir dollara í greiðslur frá fyrirtækinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert