172 flugferðum aflýst á Heathrow

Frá Heathrow-flugvellinum í London.
Frá Heathrow-flugvellinum í London. AFP

172 flugferðum hefur verið aflýst á mánudag og þriðjudag um Heathrow-flugvöllinn í London vegna kjaraviðræðna starfsmanna flugvallarins. Samningaviðræður hófust á nýjan leik í dag og allt verður lagt í sölurnar til að koma í veg fyrir allsherjarverkfall.

Starfsmenn flugvallarins, í verkalýðsfélaginu Unite, hyggjast leggja niður störf í 48 klukkustundir á mánudag og þriðjudag eftir að hafa hafnað nýjasta samningstilboði frá rekstrarfélagi flugvallarins.

Verkalýðsforingjar hittu stjórnendur flugvallarins í gær og funduðu með þeim langt fram eftir kvöldi. 

„Við höfum sett af stað aðgerðaráætlun til að halda flugvellinum opnum og öruggum í þessa tvo daga,“ sagði talsmaður Heathrow í samtali við The Guardian.

„Við reiknum með því að öryggisleit muni ganga hægar en venjulega og biðjum farþega um að vera vel undirbúnir þegar þeir mæta hingað,“ bætti hann við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert