Pútín: Þróum nýjar flaugar ef þið gerið það

Vladimír Pútín Rússlandsforseti með herforingjanum Alexander Zhuravlyov og varnarmálaráðherranum Sergei …
Vladimír Pútín Rússlandsforseti með herforingjanum Alexander Zhuravlyov og varnarmálaráðherranum Sergei Shoigu. AFP

Vladimír Pútín Rússlandsforseti varaði í dag Donald Trump Bandaríkjaforseta við að taki Bandaríkin til við að þróa nýjar skamm- og meðaldrægar kjarnaflaugar þá muni Rússar neyðast til að gera hið sama.

Bandaríkin sögðu sig á föstudag frá svo nefndu INF kjarnavopnasamkomulagi  sem þeir Ronald Regan, þáverandi Bandaríkjaforseti, og Mikhaíl Gorbasjov, þáverandi leiðtogi Sovétríkjanna, undirrituðu árið 1987. Rússnesk stjórnvöld höfðu gert hið sama fyrr á þessu ári.

Samkomulagið kvað á um bann við framleiðslu meðaldrægra kjarnaflauga og höfðu bæði bandarísk stjórnvöld og Nato sakað Rússa um að hafa þegar brotið gegn banninu.

Pútín fundaði með öryggisráði sínu í dag og skipaði varnar- og utanríkisráðuneytinu, sem og leyniþjónustustofnunum Rússlands að fylgjast náið með því hvort að Bandaríkin tækju að þróa, framleiða eða dreifa eldflaugum sem bannaðar voru samkvæmt sáttmálanum. 

„Fái Rússland áreiðanlegar upplýsingar um að Bandaríkin hafi lokið við að þróa þessi kerfi og sé byrjuð að framleiða þau mun Rússland ekki eiga kost á öðru en að hefja kröftugt átak við að framleiða sambærilegar flaugar,“ sagði í yfirlýsingu frá Pútín.

Í millitíðinni væru Rússar vel í stakk búnir til að verjast hverri þeirri ógn sem stafaði frá Bandaríkjunum með vopnabúr eldflauga sem skjóta mætti úr lofti og af sjó.

Sagði Pútín nú vera nauðsynlegt fyrir stjórnvöld ríkjanna að hefja á ný viðræður um vopn sín til að koma í veg fyrir að „hömlulaust“ vopnakapphlaup brjótist út.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert