Glæpagengi nota sprengiefni í auknum mæli

Merete Agergaard skattstjóri og Morten Bødskov, skatta­málaráðherra Dan­merk­ur, við dönsku …
Merete Agergaard skattstjóri og Morten Bødskov, skatta­málaráðherra Dan­merk­ur, við dönsku skattstofuna morguninn eftir sprenginguna á þriðjudagskvöld. Starfsmenn skattstofunnar sneru aftur til starfa í dag. AFP

Starfsmenn dönsku skattstofunnar sneru aftur til vinnu í morgun eftir tveggja daga fjarveru í kjölfar öflugrar sprengingar sem varð seint á þriðjudagskvöld. Danska ríkisútvarpið greinir frá því að árásin hafi veikt öryggiskennd borgarbúa.  

Eng­inn særðist í spreng­ing­unni en maður sem var stadd­ur nærri Nor­d­havn-lest­ar­stöðinni í Øster­bro fékk í sig flís­ar og brot vegna spreng­ing­ar­inn­ar og leitaði sér aðhlynn­ing­ar á slysa­deild. Tveir starfsmenn voru inni í bygg­ing­unni þegar spreng­ing­in varð og sluppu þeir ómeidd­ir.

Öryggiskennd starfsfólks ógnað

Mereta Agergaard, skattstjóri, var full tilhlökkunar að snúa aftur til vinnu og ávarpa 800 starfsmenn stofnunarinnar þegar fréttamaður danska ríkisútvarpsins náði tali af henni í morgun, en benti á sama tíma á alvarleika árásarinnar. „Skilaboðin sem ég hef fengið er að starfsfólkinu er skiljanlega mjög brugðið. Það er áhyggjufullt og veltir fyrir sér hvort það geti snúið aftur til vinnu og fundið til öryggiskenndar,“ segir Agergaard. 

Dagurinn hófst á starfsmannafundi þar sem danska lögreglan upplýsti starfsfólkið um stöðu rannsóknarinnar. Þá gátu starfsmenn stofnunarinnar einnig leitað til sálfræðinga. 

Framhlið aðalskrifstofu dönsku skattstofunnar er mikið skemmd eftir sprenginguna á …
Framhlið aðalskrifstofu dönsku skattstofunnar er mikið skemmd eftir sprenginguna á þriðjudagskvöld. AFP

Átta sprengingar í Kaupmannahöfn en 93 í Svíþjóð

Rannsókn lögreglu er í fullum gangi en grunur leikur á að glæpagengi beri ábyrgð á sprengingunni, sem á að hafa verið eins konar „prufusprenging“. Glæpagengi virðast nýta sprengiefni í átökum sín á milli í auknum mæli og hefur aðgangur þeirra að dínamít-líku sprengiefni orðið auðveldari, samkvæmt frétt DR

Það sem af er ári hafa átta sprengingar orðið í Kaupmannahöfn. Trine Maria Ilsøe, sérfræðingur DR í afbrotum og dómsmálum, segir sprengjuárásir og sprengjutilræði vera skilvirkt verkfæra glæpagengja. „Sprengingin getur sýnt vald gengjanna og skapað ótta, meðal annarra glæpagengja sem og hjá yfirvöldum,“ segir hún. 

Ilsøe nefnir Svíþjóð máli sínu til stuðnings þar sem fjöldi minni sprengja hefur verið sprengdur við lögreglustöðvar, ráðhús og á þekktum yfirráðasvæðum glæpagengja. 93 sprengjutilræði hafa orðið í Svíþjóð það sem af er ári, nýjasta dæmið frá því á miðvikudagskvöld þegar sprengja sprakk fyrir utan ráðhúsið í Landskrona á Suður-Skáni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert