Pútín leiðtogi Rússa til æviloka?

Vladimír Pútín var skipaður í embætti forsætisráðherra 9. ágúst 1999.
Vladimír Pútín var skipaður í embætti forsætisráðherra 9. ágúst 1999. AFP

Á föstudag voru tuttugu ár liðin frá því Vladimír Pútín Rússlandsforseti komst til valda í Moskvu og þótt hann geti gegnt forsetaembættinu í fimm ár til viðbótar er þegar hafin umræða í landinu um hvernig hann geti haldið völdunum enn lengur.

Borís Jeltsín, þáverandi forseti, skipaði Pútín í embætti forsætisráðherra 9. ágúst 1999 og þegar Jeltsín sagði af sér vegna veikinda 31. desember það ár tók Pútín við forsetaembættinu til bráðabirgða. Hann var síðan kjörinn forseti með 53% atkvæða í kosningum í mars 2000.

Þar sem stjórnarskrá landsins kveður á um að enginn geti verið forseti lengur en í tvö kjörtímabil í röð þurfti Pútín að láta af embætti 2008. Hann varð þá forsætisráðherra og hafði stólaskipti við bandamann sinn, Dmitrí Medvedev, sem varð forseti.

Aftur forsætisráðherra?

Flestir stjórnmálaskýrendur telja líklegt að Pútín vilji vera við stjórnvölinn eftir að kjörtímabili hans lýkur árið 2024 en þeir eru ekki á einu máli um hvaða leið hann sé líklegur til að velja til að halda völdunum. Pútín er 66 ára og verður á 72. aldursári þegar kjörtímabilinu lýkur, yngri en Donald Trump Bandaríkjaforseti og fylgismestu forsetaefni demókrata eru núna.

Sumir telja líklegast að Pútín verði aftur forsætisráðherra. Aðrir telja forsetann vera ósáttan við þá lausn og segja að hann hafi virst óánægður með hana á árunum 2008-2012 vegna þess að honum hafi mislíkað stefna Medvedevs í utanríkismálum og staðið stuggur af vinsældum hans. Medvedev virtist vera hissa þegar honum var sagt að hann fengi aðeins að gegna forsetaembættinu í eitt kjörtímabil og ætti að víkja fyrir Pútín.

Enn aðrir telja líklegt að stjórnarskránni verði breytt til að auka völd forsætisráðherrans á kostnað forsetaembættisins og greiða fyrir því að Pútín geti haldið völdunum eins lengi og hann vilji.

Ný stofnun eða nýtt ríki?

Fréttaveitan AFP hefur eftir stjórnmálaskýrandanum Gregorí Bovt að forsetinn og bandamenn hans íhugi m.a. þann möguleika að koma á fót einhvers konar nýrri stofnun sem stjórni landinu undir forystu Pútíns. Komið verði á svipuðu fyrirkomulagi og tekið var upp í Kasakstan í mars sl. þegar Nursultan Nazarbajev lét af embætti forseta eftir að hafa gegnt því frá því að landið fékk sjálfstæði frá Sovétríkjunum árið 1991. Nazarbajev verður „leiðtogi þjóðarinnar til æviloka“ samkvæmt stjórnarskrá landsins og einnig formaður öryggisráðs þess.

Fyrir nokkrum mánuðum komst á kreik orðrómur í Moskvu um að Pútín hygðist sameina Rússland og grannríkið Hvíta-Rússland og verða forseti nýs sambandsríkis, að sögn stjórnmálaskýrandans Chris Millers í grein í tímaritinu Foreign Policy. Löndin tvö hafa verið mjög náin, eru t.a.m. í tollabandalagi, og Rússar efna reglulega til heræfinga í Hvíta-Rússlandi, sem stundum er kallað „síðasta einræðisríki Evrópu“. Tuttuga ára gamall sáttmáli milli landanna kveður á um að þeim beri að vinna að ríkjasambandi með einum gjaldmiðli og einum fána og sáttmálinn gæti orðið lagalegur grunnur að stofnun sambandsríkis. Talið er þó ólíklegt að Alexander Lúkasjenkó, forseti Hvíta-Rússlands, og bandamenn hans fallist á að afsala sér völdunum. Miller telur að rússnesk stjórnvöld séu nógu áhrifamikil í grannríkinu til að koma Lúkasjenkó frá völdum en efast um að Kremlverjar telji það svara kostnaði.

Þótt flokkur Pútíns, Sameinað Rússland, virðist hafa tapað fylgi vegna versnandi lífskjara Rússa á síðustu árum er hann enn nógu öflugur á þinginu til að breyta stjórnarskránni og tryggja að Pútín verði við völd eftir að kjörtímabilinu lýkur. Flokkurinn gæti til að mynda afnumið stjórnarskrárákvæðið um að forsetinn geti aðeins gegnt embættinu í tvö kjörtímabil í röð. Rússneski blaðamaðurinn Leoníd Bershídskí segir í grein á fréttavef Bloomberg að stjórnarflokkurinn geti breytt stjórnarskránni til að gera Pútín að forseta til æviloka en hann hafi ítrekað hafnað þeim möguleika.

Brýnna að verja meirihlutann

Chris Miller segir í Foreign Policy að umræðan í Rússlandi um hvað Pútín eigi að gera 2024 sé orðin svo mikil að svo virðist sem allir stjórnmálamenn landsins hafi látið skoðun sína á málinu í ljós. „Það er að segja allir nema Pútín sjálfur. Ef til vill er hann að bíða eftir tækifæri til að tilkynna framtíðaráform sín. Eða kannski veit hann ekki hvað hann eigi að gera.“

Segja má að það sé ekki nema von að forsetinn hafi ekki tilkynnt áform sín því að fimm ár eru til stefnu. Talið er að brýnna sé fyrir Pútín að tryggja að flokkur hans haldi miklum meirihluta sínum í dúmunni, neðri deild þingsins, í kosningum árið 2021. Hermt er að Kremlverjar séu að íhuga þann möguleika að breyta kosningalögunum með það fyrir augum að auðvelda flokknum að halda meirihlutanum þrátt fyrir fylgistap, m.a. til að hann geti breytt stjórnarskránni eftir kosningarnar og tryggt að Pútín verði áfram við völd.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert