Bótaþegum meinað um landvistarleyfi

„Gef mér þá lúnu og fátæku, sem geta staðið á …
„Gef mér þá lúnu og fátæku, sem geta staðið á eigin fótum og verða ekki byrði á samfélaginu,“ segir yfirmaður Útlendingastofnunar Bandaríkjanna vera inntak í áletrun frelsisstyttunnar, og í samræmi við hugmyndina um ameríska drauminn. AFP

Erfiðara verður fyrir löglega innflytjendur í Bandaríkjunum að framlengja vegabréfsáritun sína eða sækja um varanlegt landvistarleyfi (græna kortið) hafi þeir þegið félagslega aðstoð, er ný reglugerð um innflytjendamál tekur gildi þar í landi 15. október.

Reglugerðin nefnist Public Charge Rule (Reglur um byrði á samfélaginu) og var kynnt á mánudag. Er henni ætlað að herða þær kröfur sem gerðar eru til innflytjenda um að þeir geti staðið á eigin fótum, eigi þeir að fá landvistarleyfi. Fram kemur í reglugerðinni að umsóknum verði nú hafnað ef yfirvöld telja líkur á að viðkomandi muni þurfa að reiða sig á opinbera aðstoð í framtíðinni.

Synjað þyki þeir líklegir til að sækja opinbera heilbrigðisþjónustu

Í umfjöllun BBC segir að reglugerðin taki ekki til þeirra sem þegar hafa varanlegt landvistarleyfi vestra, flóttamanna eða umsækjenda um alþjóðlega vernd. Umsækjendur um græna kortið, framlengingar á vegabréfsáritun og ríkisborgararétt muni þó heyra undir nýju reglurnar frá og með 15. október.

Þeim, sem ekki uppfylla skilyrði um tilteknar tekjur eða þykja líklegir til að reiða sig á opinbera heilbrigðisþjónustu (Medicaid) eða húsnæðisbætur, verður að öllum líkindum synjað um dvalarleyfi í landinu. 

Um 22 milljónir innflytjenda búa í Bandaríkjunum, tæp 7 prósent íbúa landsins. Mannréttindasamtök hafa sagt breytingarnar ósanngjarnar og að þeim sé beint sérstaklega að innflytjendum með lágar tekjur. Réttindasamtök innflytjenda (National Immigration Law Center, NILC) hafa boðað stefnu í því skyni að fá ákvörðuninni hnekkt.

Ken Cuccinelli, forstjóri Útlendingastofnunar Bandaríkjanna.
Ken Cuccinelli, forstjóri Útlendingastofnunar Bandaríkjanna. AFP

Ekki aðeins stefnt að fækkun ólöglegra innflytjenda

Breytingin þykir í anda stefnu Trumps forseta og hefur Hvíta húsið gefið út að núverandi fyrirkomulag, sem horfið verður frá, hygli innflytjendum með fjölskyldutengsl í Bandaríkjunum á kostnað þeirra sem „standa undir sjálfum sér og eru ekki byrði á sjóðum almennings“.

Þótt orðræða forsetans í aðdraganda kosninga 2016 hafi einkum beinst að því sem forsetinn kallar „ólöglega innflytjendur“ má flestum vera ljóst að stefnt hafi verið að því um hríð að fækka hvers kyns innflytjendum í landinu, hvort heldur löglegum eða ólöglegum.

Þannig hefur ríkisstjórn Trump dregið úr fjölda flóttamanna sem teknir eru inn í Bandaríkin árlega, allt frá því hann tók við embætti 20. janúar 2017. Í janúar 2018 beitti Trump til að mynda neitunarvaldi gegn frumvarpi sem samþykkt var í öldungadeildinni um innflytjendamál, þar sem ekki hefðu verið gerðar gagngerar breytingar á málsmeðferð löglegra umsækjenda um landvistarleyfi. Af því tilefni lét forsetinn hafa eftir sér að hann kysi heldur innflytjendur frá löndum eins og Noregi, frekar en löndum sem væru „skítaholur“ (e. shitholes).

Í maí lagði forsetinn svo fram tillögur sem stefna að því að auka veg vel menntaðra, yngri innflytjenda, sem tali ensku og hefur hann meðal annars horft til stigakerfis Ástralíu í þeim efnum, en þar eru umsækjendur metnir á grundvelli ýmissa þátta og þurfa að ná ákveðnum stigafjölda til að umsókn þeirra sé samþykkt.

Endurskilgreina ekki ameríska drauminn

Er umræðu um hæfniskröfur innflytjenda í Bandaríkjunum ber á góma, er jafnan stutt í að vísað sé til sögu landsins, sem byggt er innflytjendum sem margir hverjir flúðu fátækt gömlu heimsálfunnar.

Þeirrar sögu er til að mynda minnst með áletrun á frelsisstyttunni í New York, úr sonnettu ljóðskáldsins Emmu Lazarus frá árinu 1883. „Give me your tired, your poor, your huddled masses yearning to breathe free“ segir á styttunni, sem þýða mætti lauslega „Gef mér þá lúnu og fátæku, mannmergðina í hnipri sem þráir að strjúka um frjálst höfuð.“

Á blaðamannafundi í Hvíta húsinu í dag var Ken Cuccinelli, yfirmaður Útlendingastofnunar Bandaríkjanna, spurður hvort tilvitnunin félli að hugmyndafræði Bandaríkjastjórnar. „Svo sannarlega,“ svaraði Cuccinelli. „Gef mér þá lúnu og fátæku, sem geta staðið á eigin fótum og verða ekki byrði á samfélaginu.“ Það væri í samræmi við ameríska drauminn.

Benti hann á að fyrstu reglur um innflytjendur sem höfðu það að augnamiði að tryggja að þeir stæðu á eigin fótum, hefðu verið settar 1882, ári áður en umrætt ljóð var skrifað. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert