Grínaðist um Thunberg og bátaslys

Breski kaupsýslumaðurinn og Brexit-sinninn Arron Banks varði færslu sína um …
Breski kaupsýslumaðurinn og Brexit-sinninn Arron Banks varði færslu sína um Thunberg og sagði vinstrimenn skorta húmor. AFP

Breski kaupsýslumaðurinn og Brexit-stuðningsmaðurinn Arron Banks hefur hlotið mikla gagnrýni fyrir Twitter-færslu þar sem hann virðist óska sænska aðgerðasinnanum Gretu Thunberg skaða.

Thunberg lagði í gær af stað með skútu yfir Atlantshafið til að taka þátt í loftslagsráðstefnu í Bandaríkjunum.

Varaði Banks í færslu sinni Thunberg, sem er 16 ára, við því að „ófyrirséð siglingaslys verða í ágúst“. Var Banks þar að svara Twitter-færslu græningjaþingmannsins Caroline Lucas, sem sagði Thunberg bera þau „mikilvægu skilaboð til Sameinuðu þjóðanna að tíminn til að taka á neyðarástandi í loftslagsmálum sé að renna út“.

Færsla Banks hefur vakið mikla reiði hjá þingmönnum, fræðimönnum og þekktum einstaklingum. Sjálfur hefur hann varið færslu sína og sakað vinstri menn um að vera húmorslausa.

Tonia Antoniazzi, þingmaður breska Verkamannaflokksins, var meðal þeirra fyrstu til að fordæma færslu Banks. „Mér finnst algjört hneyksli að maður eins og Banks nýti sér Twitter til að koma höggi á 16 ára stúlku,“ sagði Antoniazzi í samtali við Guardian. „Það frábæra starf sem Greta hefur unnið til að koma loftslagsbreytingum efst á málefnaskrá stjórnmálanna og hvernig hún hefur virkjað ungt fólk og kynslóðir framtíðar og veitt þeim innblástur er ómetanlegt,“ bætti hún við.

„Þetta er maðurinn sem fjármagnaði Brexit-lygarnar, sem býr við ofgnótt og hann ákveður að óska Gretu Thunberg óhapps. Þetta er algjört hneyksli og það ætti að tilkynna færslu hans sem hatursglæp.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert