Ferðafrelsi á enda 31. október

Frá mótmælum Evrópusinna í miðborg Lundúna. Tvíhliða réttindum Breta og …
Frá mótmælum Evrópusinna í miðborg Lundúna. Tvíhliða réttindum Breta og annarra Evrópusambandsbúa til frjálsrar búsetu í öðrum ríkjum lýkur 31. október og er framtíðarfyrirkomulag óráðið. AFP

Ríkisstjórn Bretlands hefur gefið út að reglur sem leyfa borgurum Evrópusambandsins að búa og vinna í Bretlandi falli úr gildi er Bretar ganga úr Evrópusambandinu 31. október, eins og nú er stefnt að. Ekki liggur fyrir hvaða afleiðingar ákvörðunin hefði fyrir Breta búsetta í Evrópusambandinu enda eru örlög þeirra í höndum einstakra ríkja.

Þeir sem þegar eru búsettir í Bretlandi hafa þó fram til ársloka 2020 til að sækja um landvistarleyfi, að því er fram kemur í tilkynningu frá innanríkisráðuneyti Bretlands, en ljóst er að strax við útgöngu munu nýjar reglur gilda um þá sem hyggjast flytja til landsins.

Theresa May, fyrrverandi forsætisráðherra, hafði áður skoðað þann möguleika að framlengja ferðafrelsið til ársins 2021 eða að veita Evrópusambandsbúum sem búsettir eru í Bretlandi þriggja mánaða frest til að sækja um áframhaldandi landvistarleyfi, en þau áform hafa verið lögð til hliðar af nýjum stjórnvöldum. Þrjár milljónir borgara annarra ESB-ríkja búa í Bretlandi.

Boris Johnson forsætisráðherra segir þó að Bretar hafi ekki í hyggju að gerast „fjandsamlegir innflytjendum“ heldur að innflytjendastefnu Breta verði „lýðræðislega stjórnað“.

Í frétt breska ríkisútvarpsins er bent á að 40 milljónir íbúa ESB sæki Bretland heim árlega og verði staðið við fyrirheit sé ljóst að grípa þurfi til umfangsmikilla ráðstafana á flugvöllum í Bretlandi, með allskömmum fyrirvara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert