Bretar fela Finnum að kjósa fyrir sig

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands. AFP

Breska ríkisstjórnin tilkynnti í gær að hún hygðist fela Finnum að fara með atkvæðisrétt sinn í ráðherraráði Evrópusambandsins eftir að Bretar hætta að sækja fundi þess um mánaðamótin næstu. Euractiv greinir frá.

Frá því var greint í gær að Bretar ætluðu ekki að taka þátt í fundum sambandsins frá mánaðamótum nema þeim sem varða útgöngu Breta beint eða hafa með öryggis- og varnarmál að gera. „Ómældur tími og vinna fer í fundina,“ sagði Steve Barclay sem um þessar mundir gegnir stöðu ráðherra Brexit-mála. Hundruð vinnustunda sparist með þessu.

Þó hefur ríkisstjórnin gefið út að Boris Johnson muni eftir sem áður sitja leiðtogafund sambandsins sem fram fer í Brussel 12.-13. október og verður því að óbreyttu sá síðasti sem breskur forsætisráðherra situr.

Úr fundarsal leiðtogaráðsins. Forsætisráðherra Breta mun halda áfram þátttöku í …
Úr fundarsal leiðtogaráðsins. Forsætisráðherra Breta mun halda áfram þátttöku í fundum þess, en aðeins er einn fundur skipulagður áður en Bretar ganga út úr sambandinu, 12.-13. október. AFP

Af hverju Finnar?

Þegar talað er um ráðherraráð Evrópusambandsins er átt við fundi ráðherra allra aðildarríkja sem hafa með tiltekinn málaflokk að gera. Þannig sitja sjávarútvegsráðherrar sérhvers aðildarríkis fundi sjávarútvegsráðs, en fjármálaráðherrar fundi fjármálaráðsins.

Ákvarðanir eru teknar með kosningu og þarf að jafnaði aukinn meirihluta til að ályktun sé samþykkt. Þurfa þar fulltrúar minnst 55% aðildarríkja, sem í búa minnst 65% íbúa ESB, að greiða atkvæði með tillögu til að hún teljist samþykkt.

Hefur hjáseta í atkvæðagreiðslu því í raun sömu merkingu og að greiða atkvæði gegn tillögu. Sniðganga Breta hefði því getað orðið til þess að hamla ákvarðanatöku á fundum ráðherraráðsins. David Frost, einn samningamanna Breta í viðræðunum um útgöngu, segir því að gripið hafi verið til þess ráðs að fela Finnum að fara með atkvæði Breta „á þann hátt að það hindri ekki framþróun Evrópusambandsins“.

Finnar fara til áramóta með forsæti í ráðherraráðinu og lá því beinast við að fela þeim að fara með réttinn. Tilhögunin kemur þó ýmsum spánskt fyrir sjónir. Þannig benti skoski evrópuþingmaðurinn Alyn Smith, úr röðum græningja, á að Bretar, 66 milljóna þjóð, hefðu nú framselt vald sitt til fimm milljóna þjóðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert