Dularfullt hvarf í Noregi upplýst

Arjen Kamphuis.
Arjen Kamphuis. Ljósmynd norska lögreglan

Hollenskur sérfræðingur hjá WikiLeaks, sem hvarf með dularfullum hætti fyrir ári lést líklega í kajakslysi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá norsku lögreglunni en lík mannsins hefur ekki enn fundist.

Arjen Kamphuis, 47 ára gamall netöryggissérfræðingur, hefur ekki sést síðan hann yfirgaf hótel sitt í bænum Bodo í Norður-Noregi 20. ágúst í fyrra. Hvarf hans hefur hrint af stað bylgju samsæriskenninga á samfélagsmiðlum. Allt frá því að bandaríska leyniþjónustan og Rússar beri ábyrgð á hvarfi hans í að hann sé í sérstöku verkefni fyrir stofnanda WikiLeaks, Julian Assange. 

Lögreglan fann kajak á svipuðum slóðum og veiðimenn fundu eigur Kamphuis á floti í um 50 km austur af Bodo. Ályktar lögreglan að Kamphuis hafi lent í slysi á kajak kvöldið 20. ágúst 2018. Er talið að hann hafi drukknað en líkið hefur ekki fundist. 

Hvarf hans þótti afar grunsamlegt og ekki dró úr þeim þegar sími, tengdur Kamphuis, tengdist stuttlega rétt fyrir utan Stavanger, sem er í um 1.600 km fjarlægð frá Bodo, 30. ágúst. En í gær sagði lögreglan að tveir flutningabílstjórar frá Austur-Evrópu hafi fundið símann, fartölvu og fleiri muni Kamphuis þar sem þeir voru að veiða á þeim stað sem kajakinn fannst síðar. Þeir hirtu munina og það skýrir hvers vegna kveikt var á símanum. 

Lögreglan telur ekki að flutningabílstjórarnir tengist á nokkurn hátt hvarfi Kamphuis, segir í tilkynningu frá norsku lögreglunni í gær. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert