„Allt sem blasir við er dauði“

Alls hafa kviknað gróðureldar á 6.436 stöðum í Rondoniu, því …
Alls hafa kviknað gróðureldar á 6.436 stöðum í Rondoniu, því héraði Brasilíu sem hefur orðið hvað verst úti í gróðureldunum nú, það sem af er ári. AFP

Reykjarkófið er svo þykkt að stundum verður Cessna-flugvélin að hækka sig til að komast í gegn. Það veldur líka stundum sviða í augum og þess vegna er loftinntaki vélarinnar lokað til að gera vistina í flugstjórnarklefanum bærilega. Stundum er ástandið svo slæmt að það er erfitt að sjá hversu slæmt þetta eiginlega er á jörðinni fyrir neðan.

„Þetta er ekki bara skógur sem er að brenna,“ segir Rosana Villar hjá Greenpeace sem flaug með CNN yfir gróðureldana í Amazon. „Þetta er næstum því kirkjugarður. Því allt sem blasir við er dauði.“

CNN segir umfang eyðileggingarinnar næstum annars heims. Líkt og framtíðarsýn hrakspámanns sem vilji vara við því sem gerist bregðist heimurinn ekki strax við loftslagsvánni. „Samt sem áður er þetta raunverulegt og hér og nú og fyrir neðan okkur á meðan sólinn brennir okkur fyrir ofan og jörðin kraumar fyrir neðan,“ segir í fréttinni.

Alls hafa kviknað gróðureldar á 6.436 stöðum í Rondoniu, því héraði Brasilíu sem hefur orðið hvað verst úti í gróðureldunum nú, það sem af er ári. Að sögn bandarísku geimferðastofnunarinnar NASA er þetta það svæði Amazon-skóganna þar sem hvað mest gróðureyðing hefur átt sér stað.

Málefni Amazon ofarlega á baugi á G7-fundinum

Gróðureldar loga nú 85% fleiri stöðum í Brasilíu en á sama tíma í fyrra og greindust alls 80.626 eldar á sunnudagskvöld. Forseti landsins Jair Bolsonaro hefur verið víttur, kallaður lygari og verið hótað viðskiptaþvingunum af sumum leiðtogum G7-ríkjanna, sem nú funda í Biarritz í Frakklandi.

Lokadagur fundarhalda ríkjanna er í dag og er þá búist við að málefni Amazon verði ofarlega á baugi, en að sögn BBC eru leiðtogar ríkjanna langt komnir með að ná samkomulagi um aðgerðir til að aðstoða við að ráða niðurlögum eldanna. CNN segir engin merki þó enn hafa verið að sjá um veru hersins í Amazon á sunnudagskvöld, en það sé næstum óyfirstíganlegt verk að ráða niðurlögum eldanna. Á þeim stöðum þar sem reykurinn sé hvað þykkastur nái sólarljós varla til jarðar og eldurinn gleypi heilu skógarsvæðin sem verði á leið hans.

Stöku bygging blasir við á jörðu niðri, einangraðar á nýtilbúnu landbúnaðarsvæði í kringum þær. Ekkert fólk sjáist hins vegar, einungis stöku nautgripir sem hafa lokast inni í eldinum og reyknum.

Fæst við varanlegar breytingar á vistkerfi

Nautgripirnir eru einmitt ein helsta ástæða eldanna. Land er rutt með miklum hraða til að bregðast við kröfunni um nautakjöt. Nautgripirnir fái soja, sem vaxi á ökrum, til að éta eða gras og hvort tveggja kalli á að skóglendi sé rutt í burt.

CNN segir ástæður gróðureldanna vissulega vera umdeildar, en þegar horft sé á þær úr flugvél virðist önnur rök fölna. Landsvæði á stærð við einn og hálfan fótboltavöll sé rutt á mínútu fresti og margir sérfræðingar óttist að skógareyðingin fari að ná þeim punkti að ekki verði aftur snúið.

Því meira land sem er rutt því minna raka nær jörðin að geyma. Því þurrara verður landið og viðkvæmara fyrir gróðureldum. Spurningin sé hvenær vendipunktinum verði náð.



„Brasilía er nú þegar að fást við líkur á varanlegum breytingum á vistkerfi sínu,“ segir Villar. „Amazon-svæðið er algjörlega nauðsynlegt fyrir vatnakerfi allrar álfunnar. Þannig að ef við ryðjum skóginn mun ekki rigna í suðurhluta landsins einhver ár.“

CNN segir erfitt að telja um þetta að ræða sem framtíðarspár dómsdagsspámanna þegar horft sé á reyk og eld fara eins og hraunelfur yfir slétturnar á sama tíma og áhugalausir leigubílstjórar segi farþegum að þeir hafi aldrei séð þetta svona slæmt. „Dómsdagsframtíðin er þegar komin og hún er óþolinmóð.“

Flugvél varpar vatni yfir gróðureldana í Amazon. Þessi var á …
Flugvél varpar vatni yfir gróðureldana í Amazon. Þessi var á ferð yfir skóglendinu í Bólivíu. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert