Rifist í Biarritz vegna Pútínkröfu Trump

Donald Trump Bandaríkjaforseti með þeim Emmanuel Macron Frakklandsforseta og Angelu …
Donald Trump Bandaríkjaforseti með þeim Emmanuel Macron Frakklandsforseta og Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, á G7-fundinum í Biarritz. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseta lenti saman við aðra leiðtoga G7-ríkjanna á fundi þeirra í Biarritz um helgina vegna kröfu sinnar um að Rússum verði aftur veitt aðild að samtökunum. Guardian segir rifrildið hafa átt sér stað í kvöldverðarboði leiðtoganna á laugardagskvöld. 

Segja heimildamenn blaðsins Trump hafa verið kappsfullan í þeim kröfum sínum að hleypa ætti Vladimír Pútín Rússlandsforseta aftur að borðinu. Fimm ár eru nú frá því Rússar voru reknir úr samtökunum, sem þá hétu G8, vegna innlimunar Krímskaga.

Hafnaði Trump alfarið þeim rökum að G7 ættu að vera samtök lýðræðisríkja og er Giuseppe Conte, fráfarandi forsætisráðherra Ítalíu, sagður hafa verið sá eini sem studdi þessa kröfu Trumps að einhverju leyti.

Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans, er sagður hafa haldið hlutleysi sínu. Aðrir leiðtogar, þau Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, Angela Merkel, kanslari Þýskalands, Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, Donald Tusk, for­seti leiðtogaráðs Evr­ópu­sam­bands­ins, og Emmanuel Macron Frakklandsforseti höfnuðu kröfunni hins vegar alfarið.

„Á þeirri stundu varð andrúmsloftið frekar spennuþrungið án þess að verið sé að ýkja neitt,“ sagði heimildamaður Guardian. „Flestir hinna leiðtoganna héldu því fram að þetta sé fjölskylda, klúbbur, samfélag lýðræðisþjóðfélaga og af þeirri ástæðu sé ekki hægt að hleypa Pútín inn aftur þar sem hann standi ekki fyrir þau gildi. Það virðist hins vegar ekki vera svo mikilvægt fyrir Trump. Hann deilir ekki þeirri sýn.“

Rök Trump hefðu verið að varðandi málefni Írans, Sýrlands og Norður-Kóreu væri æskilegt að Pútín væri á fundinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert