Gildistöku þungunarrofslaga í Missouri-ríki frestað

Þungunarrofsmótmælandi fyrir utan læknamistöð samtakanna Planned Parenthood í Missouri-ríki fyrr …
Þungunarrofsmótmælandi fyrir utan læknamistöð samtakanna Planned Parenthood í Missouri-ríki fyrr í sumar. AFP

Dómari við alríkisdómstól í Bandaríkjunum komst að þeirri niðurstöðu í dag að fresta ætti fyrirhugaðri löggjöf í Missouri-ríki sem hefði bannað þungunarrof í ríkinu eftir átta vikna meðgöngu í nær öllum tilfellum.

Lögin áttu að taka gildi á morgun og hefðu haft þau áhrif að einungis væri heimilt að undirgangast þungunarrof eftir átta vikna meðgöngu ef brýn læknisfræðileg ástæða væri talin til. Þegar er þrengt að rétti kvenna til þess að undirgangast þungunarrof í ríkinu, en þar voru fyrr á árinu gerðar tilraunir til að loka einu læknamiðstöð samtakanna Planned Parenthood.

Dómarinn, Howard Sachs, sagði að bannið ætti ekki að taka gildi fyrr en málaferli hefðu farið fram eða frekari boð bærust frá dómnum.

„Þrátt fyrir að alríkisdómstólar ættu almennt að fara varlega í því að fresta áhrifum lagasetningar í einstaka ríkjum, á sú varfærni minna við þegar löggjöfin virðist hönnuð, eins og í þessu tilfelli, til þess að mótmæla ákvörðunum Hæstaréttar,“ skrifaði dómarinn í réttarskjali sem fréttaveitan Reuters vitnar til í dag.

Löggjöfin hefði komið í veg fyrir að fórnarlömb nauðgana og sifjaspells gætu undirgengist þungunarrof og í henni stendur að Missouri-ríki sé yfirlýstur „griðastaður lífs“ sem verji þungaðar konur og ófædd börn þeirra.

Frétt Reuters

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert