Umhverfisráðherra Kanada fær aukna öryggisgæslu

Catherine McKenna, umhverfisráðherra Kanada.
Catherine McKenna, umhverfisráðherra Kanada. AFP

Catherine McKenna, umhverfisráðherra Kanada, er nú undir aukinni öryggisgæslu vegna áreitni sem hún hefur orðið fyrir bæði á netinu og í persónu.

McKenna segir að í nýlegu atviki hafi maður stoppað bíl sinn við hlið hennar, þar sem hún var ásamt börnum sínum, og kallað hana „umhverfis-Barbie“. Óalgengt er að ráðherrar séu með mikla öryggisgæslu í Kanada, að því er segir í frétt BBC.

Umhverfismál eru í brennidepli fyrir kosningarnar sem fram fara í Kanada í október, en áherslur tveggja stærstu flokkanna eru afar ólíkar.

„Ég er bara að reyna að sinna starfi mínu, lifa lífi mínu og tala við fólk og þetta gerir það mun erfiðara. Ég læt þetta ekki stoppa mig, en ég vildi að þetta hætti,“ segir McKenna.

Hún hefur verið áreitt í gegnum netið allt frá því hún tók við embætti, en undanfarið hefur bein áreitni færst í aukana. Henni hafa borist hótanir auk þess sem hún hefur verið kölluð óvinur, svikari og „kommúnistarusl“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert