„Enginn matur, engin lyf og ekkert vatn“

Mikil eyðilegging var á Abaco eyjunum.
Mikil eyðilegging var á Abaco eyjunum. AFP

Yfirvöld á Bahamaeyjum verjast nú gagnrýni um að bregðast ekki nógu hratt við skaðanum sem fellibylurinn Dorian olli er hann lagði hluta eyjanna í rúst er hann fór þar yfir í síðustu viku.

Íbúar Abaco-eyjanna, sem urðu hvað verst úti, hafa sakað yfirvöld um að veita ekki næga aðstoð og gera lítið til að koma í veg fyrir rán og gripdeildir í kjölfar eyðileggingarninnar.

Guardian segir stjórnvöld á Bahama nú hafa sent 900 lögreglu- og hermenn til Abaco-eyja og Grand Bahama til aðstoðar og til að verjast gripdeildum, en þessar eyjar urðu hvað verst úti í fellibylnum. Er þeim einnig ætlað koma í veg fyrir að einkaaðilar og -fyrirtæki hagnist á björgunaraðgerðum í ringulreiðinni sem nú ríkis sums staðar.

Staðfest hefur verið að 43 hafi farist, en óttast er að tala látinna eigi eftir að hækka verulega.

Sameinuðu þjóðirnar hafa sagst telja um 70.000 manns þurfa á húsaskjóli og matvælum að halda á Bahamaeyjum eftir Dorian. Þegar hafa þúsundir íbúa þeirra svæða á Abacos-eyjum sem urðu hvað verst úti verið sendar til höfuðborgarinnar Nassau. Hafa yfirvöld sagt að mögulega þurfi að koma upp tjald- eða gámabúðum til að hýsa fólkið.

„Erum að takast á við hamfarir“

Carl Smith, talsmaður almannavarna á Bahamaeyjum, segir yfirvöld vera að „gera allt sem þau geta til að koma fólki á brott jafn hratt og skilvirkt og hægt er miðað við aðstæður“.

„Við erum að takast á við hamfarir,“ sagði Smith og kvað von á fleiri sérfræðingum á hamfarasvæðin. Á Abacos-eyjum eru 90% innviða skemmd eða eyðilögð og hafa íbúar kvartað yfir seinagangi varðandi neyðaraðstoð.

„Við höfum þurft að soga bensín út úr ónýtum bílum til að koma slösuðum á áfangastað. Það er enginn matur, engin lyf og ekkert vatn,“ hefur BBC eftir Tepeto Davis, íbúa á eyjunum. „Við þjáumst hér og það er öllum sama.“

Duane Sands, heilbrigðisráðherra Bahamaeyja, segir forgangsmál að finna þá sem saknað er og útvega matvæli, vatn og aðhlynningu fyrir slasaða.

Þegar hafa um 3.500 manns verið fluttir til Nassau með flugvélum, skemmtiferðaskipum og skipum í eigu stjórnvalda. Á laugardag lagði skemmtiferðaskip að bryggju á Riviera Beach á Flórída með 1.400 íbúa verst förnu svæðanna.

Bandaríska þróunarstofnunin (USAID) segist vinna með stjórnvöldum á Bahamaeyjum að því að útvega neyðarskýli, matvæli, vatn, lyf og aðrar neyðarvistir og sér bandaríska strandgæslan og sjóherinn um að koma gögnunum á staðinn.

Hjálpargögnum dreift í Fox Town á Abaco eyjum.
Hjálpargögnum dreift í Fox Town á Abaco eyjum. AFP
Bílar sjást hér á floti á Grand Bahama eftir að …
Bílar sjást hér á floti á Grand Bahama eftir að fellibylurinn Dorian fór þar yfir. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert