Fundu leifar af auðguðu úrani

Ali Akbar Salehi, yfirmaður kjarnorkustofnunnar Íran, og Cornel Feruta, settur …
Ali Akbar Salehi, yfirmaður kjarnorkustofnunnar Íran, og Cornel Feruta, settur forstjóri IAEA í nýlegri heimsókn þess síðarnefnda til Íran. AFP

Sýni sem Alþjóðakjarnorkumálastofnunin (IAEA) tók á stað í Teheran sem Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, kallar „leynilegt atómvöruhús“ sýndu leifar af úrani sem írönsk stjórnvöld hafa enn ekki gefið skýringu á.

Reuters-fréttaveitan hefur þetta eftir tveimur diplómötum sem fylgjast náið með athugunum stofnunarinnar.

Er IAEA nú sögð vera að rannsaka uppruna agnanna og hafa írönsk yfirvöld verið beðin um útskýringar. Það hafi þau hins vegar ekki gert og hefur það að sögn Reuters aukið enn frekar á spennuna milli Írans og Bandaríkjanna, sem hafa sett viðskiptabann á sölu með íranska olíu. Írönsk stjórnvöld hafa svo brugðist við með því að rjúfa kjarnorkusamkomulag sem þau gerðu árið 2015 við Vesturveldin.

Í ræðu sem hann hélt fyrir ári hvatti Netanyahu, sem hefur alla tíð verið ósáttur við kjarnorkusamkomulagið, IAEA til að heimsækja svæðið hið fyrsta. Fullyrti hann að þar hefðu verið geymd 15 kg af ótilgreindu geislavirku efni sem nú væri búið að fjarlægja.

Reuters greindi frá því í apríl á þessu ári að IAEA hefði rannsakað svæðið, en stofnunin hefur áður sagt að hún grípi aðeins til slíkra aðgerða þegar nauðsyn beri til. Þar hefðu sýni verið tekin og send til rannsóknar.

Bæði ísraelskir og bandarískir fjölmiðlar hafa síðan greint frá því að leifar af geislavirku efni hafi fundist. Reuters hefur eftir heimildamönnum sínum að geislavirka efnið hafi verið úran, en Íranar hafa auðgað úran sem er annað tveggja kljúfanlegra efna sem hægt er að nýta við gerð kjarnorkusprengju.

Sagði annar heimildamannanna að úranið sem fannst hefði ekki verið búið að auðga mikið og þar af leiðandi hefði það alls ekki verið nógu hreint til að hægt væri að nýta það í kjarnorkusprengju.

„Það er fjöldi mögulegra skýringa,“ sagði hann. Þar sem Íranar hafi hins vegar ekki enn veitt neina skýringu eigi IAEA erfitt með að sannreyna uppruna agnanna. Né heldur sé ljóst hvort um sé að ræða leifar efnis sem kunni að hafa orðið til áður en kjarnorkusamkomulagið var undirritað árið 2015.

Danny Danon, fastafulltrúi Ísraels hjá Sameinuðu þjóðunum, sagði hins vegar á Twitter að IAEA hefði staðfest fullyrðingu Ísraelsmanna. „[Íranska] stjórnin verður að sæta ábyrgð, það má ekki gefa henni frítt spil,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert