Galt afhroð í kosningunum í Moskvu

Rússneski stjórnarflokkurinn Sameinað Rússland galt verulegt afhroð í borgarstjórnarkosningum sem haldnar voru í Moskvu í gær.

BBC segir að þegar talningu atkvæða sé að mestu lokið hafi flokkurinn misst um þriðjung sæta sinna í borgarstjórn en að svo virðist sem hann nái engu að síður að halda meirihlutanum.

Velflestum frambjóðendum stjórnarandstöðunnar var bannað að gefa kost á sér í kosningunum en óháðir frambjóðendur og Kommúnistaflokkurinn bættu við sig atkvæðum.

Til mikilla mótmæla kom í Moskvu í sumar vegna þeirrar ákvörðunar yfirvalda að útiloka frambjóðendur stjórnarandstöðunnar frá því að gefa kost á sér. Þúsundir voru handteknir í mótmælunum og var óeirðalögreglan sökuð um að hafa sýnt of mikla hörku í aðgerðum sínum.

BBC segir að svo virðist sem Sameinað Rússland fái 26 af 45 sætum í borgarstjórn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert