Kostar billjónir að hindra „loftslagsaðskilnað“

Bílar sjást hér á floti á Grand Bahama eftir að …
Bílar sjást hér á floti á Grand Bahama eftir að fellibylurinn Dorian fór þar yfir. AFP

Það mun kosta billjónir dollara (e. trillions) að að koma í veg fyrir aðskilnaðarstefnu vegna hamfarahlýnunar, en það er engu að síður minna en sá kostnaður sem heimurinn stendur frammi fyrir verði ekkert að gert. Er heimurinn sagður vera „illilega ófullnægjandi“ búinn undir óumflýjanlegar afleiðingar loftslagsvárinnar.

Guardian segir þetta meðal þeirra niðurstaðna sem er að finna í skýrslu Global Commission on Adaptation (GCA) sem unnin var að beiðni 18 ríkja. Meðal þeirra sem höfðu aðkomu að gerð skýrslunnar eru Ban Ki-moon, fyrrverandi framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, og Bill Gates, stofnandi Microsoft, auk umhverfisráðherra frá ríkjum á borð við Kína, Indland og Kanada, yfirmanna Alþjóðabankans og yfirmanna loftslags- og umhverfissviða Sameinuðu þjóðanna.

Segja skýrsluhöfundar skort á undirbúningi munu leiða til fátæktar, vatnsskorts og aukins fjölda hælisleitenda með „óumflýjanlegum mannskaða“.

Brasilískur bóndi gengur hér með hundi sínum í gegnum svæði …
Brasilískur bóndi gengur hér með hundi sínum í gegnum svæði Amazon skóganna sem varð gróðureldum að bráð í síðasta mánuði. AFP

Skortur á pólitískri forystu stærsta hindrunin

Til þess að koma í veg fyrir „loftslagsaðskilnaðarstefnu“ þar sem hinir ríku geti sloppið við áhrifin en ekki hinir fátækari sé þörf á billjón dollara fjárfestingum. Sá kostnaður sé þó mun minni en endanlegur kostnaður þess að gera ekkert.

Samkvæmt skýrslunni eru peningar ekki stærsta hindrunin heldur frekar „skortur á pólitískri forystu sem veki fólk upp úr sameiginlegum doða“. Þörf sé á „byltingu“ í skilningi á hættunni sem stafar af hlýnun jarðar, hvaða ákvarðanir séu teknar og þeim lausnum sem eru fundnar.

Meðal mest aðkallandi aðgerða sem skýrsluhöfundar mæla með eru viðvörunarkerfi sem vara fyrr við yfirvofandi hörmungum, að þróaður sé gróður sem þolir betur þurrkatíma, sem og endurheimt fenjasvæða til að verja strandlengjuna. Meðal annarra aðgerða er að húsþök verði máluð hvít til að draga úr hitasöfnun.

„Loftslagsváin er þegar hér. Miklir gróðureldar leggja viðkvæm gróðursvæði í rúst, vatnskranar í borgum verða vatnslausir, þurrkar svíða jörðu og stórflóð eyðileggja heimili fólks og lifibrauð. Til þessa hafa viðbrögðin verið ófullnægjandi, segja þau Ban, Gates og Kristalina Georgieva, sem er framkvæmdastjóri Alþjóðabankans, í inngangsorðum skýrslunnar.

„Ég hef áhyggjur af skorti stjórnmálaleiðtoga á framtíðarsýn,“ sagði Ban. „Þeir hafa meiri áhuga á að ná kjöri og endurkjöri og loftslagsmálin eru ekki forgangsmál hjá þeim. Við sjáum þetta vel hjá Donald Trump í Bandaríkjunum.“

Hagkvæmast að fjárfesta í aðlögun

Skýrslan segir alvarlegar afleiðingar nú óumflýjanlegar og áætlar að verði ekki gripið til varúðarráðstafana kunni 100 milljónir manna til viðbótar að búa við fátækt árið 2030. Þeim sem búa við vatnsskort muni fjölga úr 1,4 milljörðum í fimm milljarða og það muni valda áður óþekktri samkeppni um vatn sem aftur muni kynda undir deilum og fólksflutningum.

Þá muni hækkandi staða sjávar og aukning stormviðra leiða til þess að hundruð milljóna manna sem í dag búa við sjávarsíðuna yfirgefi heimili sín og kostnaður vegna þess muni nema um einni billjón (milljón milljónum) árlega árið 2050.

„Það er þjóðum heims hagkvæmast að fjárfesta í aðlögun,“ sagði Patrick Verkooijen, framkvæmdastjóri GCA, en samkvæmt skýrslunni kann það, að eyða 1,8 billjónum dollara í fimm lykilsvið fyrir árið 2030, leiða til 7,1 billjónar dollara hagnaðar með því að koma í veg fyrir skaða og auka efnahagsvöxt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert