Segir árásina viðvörun

Forseti Íran, Hassan Rouhani.
Forseti Íran, Hassan Rouhani. AFP

Forseti Írans, Hassan Rouhani, segir að árás Jemena á tvær olíuvinnslustöðvar í Sádi-Arabíu um helgina sé viðvörun. Að með þeim vilji árásarmennirnir vara við frekari hernaðaraðgerðum vegna hernaðar Sádi-Araba, með stuðningi Bandaríkjamanna, í Jemen.

Hann bendir á að skotmörk þeirra hafi ekki verið sjúkrahús eða skólar eða matarmarkaðir heldur iðnaðarsvæði. Lærið af þessu og íhugið stöðu mála í þessum heimshluta, segir Rouhani. 

Fyrir árásirnar um helgina höfðu Hútar í Jemen, sem njóta stuðnings Írana, gert fjölda dróna- og flugskeytaárása á Sádi-Arabíu síðustu mánuði. Þær kostuðu að minnsta kosti fjóra menn lífið og nokkrar þeirra ollu skemmdum á mannvirkjum.

Sérfræðingar í öryggismálum segja árásirnar sýna að landið sé berskjaldað gagnvart dróna- og stýriflaugaárásum þótt það hafi varið jafnvirði hundraða milljarða króna í loftvarnir á síðustu árum. Þær bendi einnig til þess að hefðbundnar loftvarnir dugi skammt gegn þessari nýju og tiltölulega ódýru tækni. Hættan sem stafi af drónum sé alltaf að breytast og ríki heims þurfi því stöðugt að endurskoða varnir sínar.

Sádi-Arabía hefur stóraukið útgjöld sín til varnarmála á síðustu árum og var í efsta sæti á lista yfir lönd sem fluttu inn mest af vopnum á árunum 2014 til 2018, að sögn Alþjóðlegu friðarrannsóknastofnunarinnar (SIPRI) í Stokkhólmi. Um 88% af innfluttu vopnunum komu frá Bandaríkjunum. Talið er að vopnainnflutningur Sáda hafi numið alls 7,3 milljörðum dollara á síðasta ári, jafnvirði rúmra 900 milljarða króna, að sögn Financial Times. Sádar hafa eflt loftvarnir sínar með kaupum á nýjustu ratsjártækjum, orrustuþotum á borð við F-15 og Patriot-flaugum sem eru ætlaðar til að verjast eldflaugaárásum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert