Hunsar loftslagsráðstefnuna en mætir í húsið

Donald Trump Bandaríkjaforseti ætlar að sitja fund um trúfrelsi í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna (Sþ) á sama tíma og loftslagsráðstefna stofnunarinnar fer þar fram. Guardian segir hátt setta embættismenn Sameinuðu þjóðanna hafa staðfest að Hvíta húsið hafi bókað fundarsal í höfuðstöðvum stofnunarinnar í New York á mánudag, en þann dag verður haldin loftslagsráðstefna Sþ.

Segir Guardian líklegt að þessi ákvörðun forsetans verið álitin meðvituð aðferð Trumps til að hunsa loftslagsráðstefnuna. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands, er meðal þeirra þjóðarleiðtoga sem sitja munu ráðstefnuna. Þar verða einnig Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, Emmanuel Macron Frakklandsforseti og Narenda Modi, forsætisráðherra Indlands, en ráðstefunni er ætlað að beina athyglinni að knýjandi þörf fyrir aðgerðir gegn loftslagsvánni.

Enginn átti von á Trump

Heimildamaður Guardian hjá Sþ segir Hvíta húsið hafa bókað salinn með tiltölulega skömmum fyrirvara og að bókunin muni valda nokkrum skipulagsvanda vegna þeirra miklu öryggisráðstafana sem viðhafðar eru á hverjum þeim stað sem Bandaríkjaforseti kemur til.

„Enginn átti raunverulega von á forsetanum á loftslagsráðstefnuna,“ segir embættismaðurinn. Starfsfólk Sþ hafi raunhæfar væntingar til Trumps og það búist ekki við að hann taki þátt í umræðu um loftslagsvána, jafnvel þó að ráðstefnan sé haldin á hans heimaslóðum.

Donald Trump Bandaríkjaforseti og forsetafrúinn Melania Trump. Hvíta húsið pantaði …
Donald Trump Bandaríkjaforseti og forsetafrúinn Melania Trump. Hvíta húsið pantaði ráðstefnusal í húsakynnum Sameinuðu þjóðanna sama dag og loftslagsráðstefnan fer þar fram fyrir ráðstefnu um trúfrelsi. AFP

Trump tilkynnti á fyrsta ári sínu í embætti að hann myndi segja Bandaríkin frá Parísarsamkomulaginu sem forveri hans hafði undirritað.

„Hann stíflar allt kerfið,“ segir Mary Robinson, fyrrverandi Írlandsforseti og fyrrverandi  mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna. „Hann vill ekki fara á loftslagsráðstefnuna, en vill líklega valda trufluninni.“

Bara bestu hugmyndirnar kynntar

Jafnvel þó að Trump hefði mætt á ráðstefnuna segir Guardian ólíklegt að hann hefði verið látinn ávarpa samkomuna. Fulltrúar 60 ríkja munu taka til máls á ráðstefnunni á mánudag og greina frá því hvaða aðgerðir þeirra ríki séu að grípa til til að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda og hvernig reynt sé að bregðast við flóðum, ofsaveðri og öðrum áhrifum hlýnunar jarðar.

Luis Alfonso de Alba, sérstakur sendifulltrúi Sþ á ráðstefnunni, segir eingöngu bestu hugmyndirnar verða kynntar á fundinum og það frá þeim leiðtogum sem leggi sig hvað mest fram.

Viðvera Trumps í byggingunni mun engu að síður virka sem ögrun. Milljónir um heim allan tóku þátt í allsherjarverkfalli vegna loftslagsvárinnar í dag og mótmælendur í New York ætla að gera sig sýnilega við höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna í borginni á mánudag.

„Að taka ekki þátt, en mæta samt í bygginguna er að kasta hanskanum,“ sagði David Waskow, forstjóri loftslagsmála hjá World Resources Institute. „Ekki hvað síst er þetta lítilsvirðing gagnvart unga fólkinu sem nú biður um aðgerðir vegna loftslagsvárinnar. Donald Trump hefur gert heiminum og Bandaríkjunum það ljóst að hann hefur engan áhuga á vísindunum eða málefninu. Það er því allra annarra að taka það mál áfram.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert