Óviðeigandi loforð hefði verið „heimskulegt“

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti neitar því að hafa lofað ónefndum erlendum þjóðhöfðingja einhverju sem hann mátti ekki lofa. Samkvæmt frétt Washington Post lagði starfsmaður leyniþjónustu Bandaríkjanna fram formlega uppljóstrunarkvörtun vegna málsins.

Demókratar á þingi reyni að fá kvörtunina afhenta en yfirmaður leyniþjónustunnar hefur ekki látið hana af hendi.

Fjölmiðlar vestanhafs telja að loforð Trumps tengist Úkraínu en forsetinn ræddi við Volodymyr Zelenskyy, úkraínskan kollega sinn, í lok júlí. Starfsmaður leyniþjónustunnar kvartaði síðan yfir forsetanum 12. ágúst.

Demókratar á þingi hafa rannsakað hvort Trump og lögmaður hans, Rudy Giuliani, reyndu að þrýsta á ríkisstjórn Úkraínu að rannsaka Joe Biden, einn forsetaframbjóðenda demókrata vegna kosninga á næsta ári, og son hans. Hunter Biden starfaði í gasfyrirtæki í Úkraínu.

Giuliani ræddi málið á CNN í gærkvöld. Hann neitaði því fyrst að hafa beðið yfirvöld í Úkraínu að rannsaka Biden. Síðar gekkst hann við og sagðist hafa rætt við yfirvöld í Kiev hvort Biden hefði haft puttana í brottrekstri saksóknara sem rannsakaði Hunter Biden.

Trump sagði sjálfur á Twitter að ekkert væri hæft í fréttunum, heldur væri um falsfréttir að ræða (e. fake news). Hann sagðist meðvitaður um að í hvert skipti sem hann ræddi við erlenda þjóðhöfðingja í síma þá væru margir að hlusta og það væri ekkert vandamál. 

Forsetinn bætti því við að það væri heimskulegt að halda því fram að hann myndi segja eitthvað óviðeigandi við annan þjóðarleiðtoga þegar hann vissi að mörg eyru legðu við hlustir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert