Réðust á uppreisnarmenn Húta í Jemen

Hútar hafa ekki tjáð sig um árásina en uppreisnarsveitir í …
Hútar hafa ekki tjáð sig um árásina en uppreisnarsveitir í Jemen saka Sádi-Araba um stigmögnun átaka á svæðinu. AFP

Hernaðarbandalag Sádi-Araba og Jemensforseta, auk annarra, gerði loftárás í gær á bækistöðvar uppreisnarsveita Húta í grennd við hafnarborgina Hodeida á suðurströnd Jemens. 

Engar fregnir hafa borist af mannfalli. Hútar hafa ekki tjáð sig um árásina en uppreisnarsveitir í Jemen saka Sádi-Araba um stigmögnun átaka á svæðinu. 

Þetta er fyrsta árás bandalagsins á uppreisnarmenn Húta eftir að drónaárás var gerð á tvær olíuvinnslustöðvar í Sádi-Arabíu um síðustu helgi. Uppreisnarsveitir í Jemen hafa lýst þeirri árás á hendur sér en Bandaríkin og Sádi-Arabía segja Írana standa á bak við árásina. 

Í tilkynningu frá yfirstjórn hernaðarbandalagsins kemur fram að fjórar bækistöðvar uppreisnarmanna hafi orðið fyrir árásinni í gær. Bækistöðvarnar voru taldar ógn við öryggi þeirra sem fara sjóleiðina í Bab al-Mandeb-sundi og á sunnanverðu Rauðahafi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert