Gulvestungar handteknir á loftslagsmótmælum

Lögreglan í París var með mikinn viðbúnað þar sem yfirvöld …
Lögreglan í París var með mikinn viðbúnað þar sem yfirvöld bjuggu sig undir að róttækustu mótmælendurnir úr röðum gulvestunga myndu reyna að smjúga sér inn í loftslagsmótmæli sem boðað er til í borginni í dag. AFP

Yfir hundrað mótmælendur voru handteknir í mótmælum gulvestunga í París í dag. Lögreglan var með mikinn viðbúnað þar sem yfirvöld bjuggu sig undir að róttækustu mótmælendurnir úr röðum gulvestunga myndu reyna að smeygja sér inn í loftslagsmótmæli sem boðað er til í borginni í dag og valda þar usla. 

Um 7.500 lögreglumenn eru á vakt í París í dag vegna mótmælanna, en loftslagsmótmælin eru liður í alþjóðlegri loftslagaviku þar sem kallað er eftir aðgerðum yfirvalda um allan heim gegn loftslagsvánni. 

Gulvestungar hófu að mótmæla víða í Frakklandi á hverjum laugardegi í nóvember í fyrra en hafa lítið látið á sér bera í sumar. Mót­mæl­in bein­ast gegn Emmanuel Macron for­seta og aukn­um álög­um sem fólk tel­ur sig nú þurfa að bera.

Mótmæli gulvestunga í dag eru þau 45. í röðinni.
Mótmæli gulvestunga í dag eru þau 45. í röðinni. AFP

„Hvað erum við að gera? Við erum hér samankomin til að vekja athygli á því að við náum ekki endum saman. Mótmælin eru ekki eingöngu gegn forsetanum, þau eru gegn öllu kerfinu,“ segir mótmælandi sem ekki vill láta nafns síns getið í samtali við AFP-fréttastofuna. 

Mótmæli gulvestunga í dag eru þau 45. í röðinni. Í vor var farinn að færast aukinn þungi í mótmæli hópsins og sá lögreglan ástæðu til þess í dag að vera við öllu búin. Laust eftir hádegi hafði lögregla handtekið 106 manns. Sumir hinna handteknu voru með hamra og bensínbrúsa í fórum sínum. 

„Það er komið fram við okkur eins og glæpamenn,“ segir Brigitte, sem var meðal mótmælenda. 

Macron bað almenning að halda ró sinni. Hann segir það jákvætt að fólk nýti tækifærið til að tjá sig en að engin ástæða sé til þess að trufla loftslagsmótmælin eða menningarviðburði sem fram fara í borginni á sama tíma.

Um 7.500 lögreglumenn eru á vakt í París í dag …
Um 7.500 lögreglumenn eru á vakt í París í dag vegna mótmælanna. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert