Hæstiréttur Bretlands mun á morgun kveða upp um það hvort Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, hafi brotið lög þegar hann rauf þing í aðdraganda útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu í næsta mánuði.
AFP-fréttaveitan hefur þetta eftir talskonu réttarins sem segir úrskurðinn liggja fyrir klukkan 10.30 að staðartíma.
Skoskur dómstóll hafði komist að þeirri niðurstöðu að þingslitin hefðu ekki verið lögleg og áfrýjaði ríkisstjórnin þeirri niðurstöðu til Hæstaréttar Bretlands.
Dómarar hæstaréttar hlýddu þrjá daga í síðustu viku á rök deiluaðila og réttmæti þeirrar ákvörðunar Johnsons að gera fimm vikna þinghlé fram til 14. október.