Eiturgufur í veipinu kunna að valda lungaskemmdunum

Vefjasýnin 17 sem rannsóknin tók til komu öll frá sjúklingum …
Vefjasýnin 17 sem rannsóknin tók til komu öll frá sjúklingum sem höfðu veipað og hafði 71% þeirra sett marijúana eða kannabisolíu í rafrettuna. AFP

Vefjasýni úr lungum 17 einstaklinga sem þjást af alvarlegum lungnasjúkdómi sem talið er mega rekja til rafrettunotkunar sýna að áverkanir samræmast því að þeir hafi komist í snertingu við hættulegar eiturgufur.

Þetta eru niðurstöður rannsóknar sem unnin var á bandarísku Mayo Clinic-sjúkrahúsunum og birt er í læknablaðinu New England Journal of Medicine. Þar kemur fram að engar vísbendingar hafi fundist um vefjaskemmdir vegna fitusöfnunar, en sú kenning hefur til þessa verið ráðandi.

„Þó að við getum ekki útilokað þátt fitu höfum við ekki fundið neitt sem gefur til kynna að þessi vandi sé til kominn vegna fitusöfnunar í lungum,“ hefur AFP-fréttaveitan eftir Brandon Larsen, skurðmeinafræðingi við Mayo Clinic í Arizona.

„Þess í stað virðist vera um einhvers konar beinan efnaskaða á ræða, svipaðan því sem búast má við að finna eftir snertingu við eiturgufur, eiturgas eða eiturefni.“

Vefjasýnin 17 sem rannsóknin tók til komu öll frá sjúklingum sem höfðu veipað og hafði 71% þeirra sett marijúana eða kannabisolíu í rafrettuna. Tveir sjúklinganna létust.

Segir AFP sjúklingana 17 þó einungis vera lítinn hluta þeirra 800 lungnatilfella sem bandarísku sóttvarnastofnuninni (CDC) hafa undanfarna mánuði borist tilkynningar um að kunni að tengjast rafrettunotkun.

Að sögn CDC hefur nú verið tilkynnt um 12 dauðsföll í Bandaríkjunum sem talin eru tengjast rafrettunotkun og eru heilbrigðisyfirvöld með málið til rannsóknar, en ungir karlar eru áberandi í sjúklingahópnum.

Rúmlega þriðjungur þeirra sem hafa orðið fyrir lungnaskemmdum hafa notað rafrettuvökva sem inniheldur THC eða tetrahydrocannabinol  sem er virka efnið í marijúanaplöntunni.

Önnur efni eru þó einnig notuð í rafrettuvökvann svo hægt sé að hita hann og anda honum að sér. Segir AFP rannsakendur vonast til að komast að því hvert þeirra efna sé orsök lungnaskemmdanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert