Flengingar verða lögbrot

Nicola Sturgeon forsætisráðherra Skotlands í heimsókn á leikskóla þar í …
Nicola Sturgeon forsætisráðherra Skotlands í heimsókn á leikskóla þar í landi. AFP

Skotland verður fyrsta landið á Bretlandseyjum til að banna líkamlegar refsingar gegn börnum, verði frumvarp þessa efnis að lögum síðar í dag. Þar með yrðu Skotar 58. landið í heiminum til að setja slík lög. Lög sem banna að börn séu beitt líkamlegum refsingum hafa verið í gildi hér á landi frá 2009.

Í frétt breska ríkisútvarpsins, BBC, segir að samkvæmt núgildandi lögum megi foreldrar og þeir sem sjái um börn megi nota „réttlætanlegt líkamlegt afl"  til að aga börn, en líkamlegar refsingar í skólum og öðrum menntastofnununum hafa verið ólöglegar um skeið. Hægt verður að sækja foreldra til saka fyrir að beita börn líkamlegum refsingum. Lögin hafa verið kynnt undir slagorðinu „Hugs not hits“ og hafa kannanir sýnt að meirihluti Skota er á móti þeim, m.a. á þeim forsendum að með þeim sé verið að glæpavæða hegðun góðra foreldra sem séu að reyna sitt besta.

Með lagabreytingunni er börnum veitt sama vernd gegn ofbeldi og fullorðnu fólki, en búist er við því að lögin verði samþykkt með miklum meirihluta þingmanna. Í frétt BBC eru þær refsingar tilteknar sem lögin ná yfir, en þær eru m.a. rassskellingar, löðrungar, spörk, klór og að klípa og bíta, rífa í hár og slá á eyru. Þá mun einnig varða við lög að láta börn standa í óþægilegum stellingum og neyða þau til að innbyrða það sem þau ekki vilja.

Í frétt BBC segir að Svíþjóð hafi verið fyrsta landið í heiminum til að banna líkamlegar refsingar gegn börnum, en það var árið 1979.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert