Svíar takast á um umskurð drengja

AFP

Gyðingar og múslimar í Svíþjóð eru afar ósáttir við ályktun Miðflokksins um að banna umskurð drengja. Leiðtogi sænska Miðflokksins, Annie Lööf, sér eftir samþykkt ályktunarinnar eftir að ljóst varð hversu ósáttir gyðingar og múslimar eru við hugmyndina.

Á ársfundi Miðflokksins í Karlstad um helgina var samþykkt ályktun um að banna umskurð drengja nema ástæðan sé læknisfræðileg. Ályktunin er ein margra hugmynda sem voru ræddar á fundinum. Þar á meðal hvort hætta eigi að banna samkynhneigðum og tvíkynhneigðum körlum að gefa blóð. Ályktun þar að lútandi var felld á fundinum þannig að flokkurinn leggst enn gegn því að þeir fái að gefa blóð. Aftur á móti var samþykkt ályktun um þriðja kynið.

Að sögn Lööf er ályktunin varðandi umskurð ekki í samræmi við línu flokksins opinberlega og segist hún ekki vera sátt við niðurstöðuna.

Frétt DN

Mikil umræða var um frumvarp til laga fyrir ári hér á landi varðandi umskurð drengja en Silja Dögg Gunn­ars­dótt­ir, þing­maður Fram­sókn­ar­flokks­ins, lagði fram frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940 (bann við umskurði drengja) í janúar 2018.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert