Hyggjast mótmæla tæknifrjóvgunum lesbía

Læknir á frjósemismiðstöðinni CECOS í París. Um er að ræða …
Læknir á frjósemismiðstöðinni CECOS í París. Um er að ræða eitt af kosningaloforðum Emmanuels Macrons Frakklandsforseta, en í kosningabaráttunni 2017 hét hann því að allir þegnar landsins myndu sitja við sama borð varðandi frjósemismeðferðir og tæknifrjóvganir, óháð hjúskaparstöðu og kynhneigð. AFP

Búist er við að mörg þúsund Frakkar muni taka þátt í mótmælum sem fyrirhuguð eru í París í dag. Fólkið er andsnúið þeim áformum stjórnvalda að heimila frjósemismeðferðir og tæknifrjóvganir einhleypra kvenna og lesbískra para. Skipuleggjendur mótmælanna segjast vonast til þess að 100.000 manns taki þátt í mótmælunum.

Umrædd lög voru samþykkt af neðri deild franska þingsins í síðasta mánuði og bíða nú meðferðar efri deildarinnar. Um er að ræða eitt af kosningaloforðum Emmanuels Macrons Frakklandsforseta, en í kosningabaráttunni 2017 hét hann því að allir þegnar landsins myndu sitja við sama borð varðandi frjósemismeðferðir og tæknifrjóvganir, óháð hjúskaparstöðu og kynhneigð. Mikil andstaða hefur verið við þessar fyrirætlanir hjá þeim stjórnmálaflokkum sem skilgreina sig lengst til hægri og hjá kaþólsku kirkjunni.

Fram að þessu hafa franskar konur sem eru einhleypar eða samkynhneigðar þurft að fara til annarra landa í meðferðir sem þessar og franskir dómstólar hafa neitað að viðurkenna að barn geti átt tvær mæður. 

Ef lögin taka gildi mun franska ríkið greiða frjósemismeðferðir og tæknifrjóvganir fyrir allar konur í Frakklandi sem eru yngri en 43 ára og yrði landið þar með með sömu lög á þessu sviði og þegar eru í gildi í flestum Evrópulöndum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert