Gert að greiða 1.000 milljarða vegna brjóstvaxtar

Fyrirtækið segist fullvisst um að hafa betur að lokum, en …
Fyrirtækið segist fullvisst um að hafa betur að lokum, en einnig er ekki óþekkt að svona gríðarlega háar bótagreiðslur séu lækkaðar verulega eftir áfrýjun. AFP

Bandaríska lyfjafyrirtækið Johnson & Johnson hefur verið dæmt til þess að greiða 8 milljarða dala (um 1.000 milljarða íslenskra króna) bætur vegna máls ungs karlmanns sem fékk brjóst eftir að hafa tekið inn geðlyfið Risperdal frá unga aldri. Lyfið er markaðssett af Janssen Pharmaceuticals, dótturfyrirtæki Johnson & Johnson.

Dómstóll í Fíladelfíu komst að þessari niðurstöðu í gær, en lyfjafyrirtækið segist ætla að áfrýja, enda sé upphæð bótagreiðslunnar fjarstæðukennd. Fyrirtækið segist fullvisst um að hafa betur að lokum, en einnig er ekki óþekkt að svona gríðarlega háar bótagreiðslur séu lækkaðar verulega eftir áfrýjun.

Maðurinn, Nicholas Murray, er 26 ára gamall. Hann fór upphaflega í mál við Johnson & Johnson árið 2013 og hafði þegar haft betur gegn fyrirtækinu. Fékk hann persónulega 680.000 dali í miskabætur vegna málsins árið 2016.

Lögfræðingar hans fóru með málið lengra og sóttu frekari bætur, ekki bara vegna þess miska sem Murray varð fyrir vegna brjóstvaxtarins og hafði þegar hlotið bætur fyrir, heldur vegna refsiverðrar háttsemi fyrirtækisins, svokallaðar hegningarbætur (e. punitive damages).

Murray byrjaði að nota Risperdal árið 2003 er hann var 9 ára gamall vegna einhverfueinkenna, en í lögsókn hans var því haldið fram að lyfjafyrirtækið hefði ekki gert nóg til þess að vara lækna við þeirri áhættu sem fylgt gæti ávísun lyfsins, en hann brjóstvöxt (gynecomastia), sem er þekkt vandamál meðal karla og er yfirleitt vegna breytinga á framleiðslu kynhormónanna testósteróns og estrógens.

Þetta er enn eitt vandræðamálið sem Johnson & Johnson tekst á við fyrir dómstólum. Fyrr á árinu var fyrirtækinu gert að greiða 572 milljónir dala vegna framlags síns til ópíóðafaraldursins í Oklahóma-ríki og samdi einnig við tvær sýslur í Ohio-ríki um greiðslu 20,4 milljóna skaðabóta vegna ópíóðafaraldurs sem þar geisar.

Frétt New York Times um málið
Frétt BBC um málið

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert