Hæstiréttur krefst svara vegna mengunar

Indlandshliðið í Delhi á Indlandi á björtum degi (neðri mynd) …
Indlandshliðið í Delhi á Indlandi á björtum degi (neðri mynd) og svo í loftmenguninni sem nú liggur yfir borginni. AFP

Hæstiréttur Indlands sakar indversk stjórnvöld um aðgerðaleysi vegna þeirrar miklu loftmengunar sem nú er í höfuðborginni Delhi. Segir dómstóllinn þau þess í stað benda hvert á annað og að yfirvöld hafi meiri áhuga á auglýsingabrellum en raunverulegum aðgerðum til að bregðast við menguninni.

Magn efnisagna svifryks (þekkt sem PM 2,5) er nú tíu sinnum yfir heilsuverndarmörkum í borginni og sagði aðalráðherra Del­hi, Ar­vind Kejriwal, nú fyrir helgi að borginni hefði verið breytt í gasklefa.

 „Delhi kafnar á hverju ári og við getum ekkert gert við því,“ hefur BBC eftir hæstaréttardómaranum Arun Misha.

„Opinbera kerfið er ekki að bregðast við. Þar bendir hver á annan og allir hafa meiri áhuga á auglýsingabrellum og kosningum.“

Borgaryfirvöld hafa brugðist við menguninni með því að fyrirskipa að dagana 4.-15. nóvember verði einungis helmingi bíla borgarinnar leyft að vera á götunum á sama tíma. Er þannig bílum með númerum þar sem síðasta talan er oddatala heimilt að aka einn daginn og bílum með slétta tölu hinn.

Gripið hefur verið til slíkra aðgerða áður, en ekki er ljóst hvort þær hafi tilætluð áhrif.

Maður gengur yfir götu í Delhi í morgun. Mikið mengunarský …
Maður gengur yfir götu í Delhi í morgun. Mikið mengunarský liggur nú yfir borginni og hefur hæstiréttur skipað yfirvöldum að svara því hvort bílakvótinn virki. AFP

Banvænn kokteill uppskerubruna og flugelda

BBC segir mengun vegna bílaumferðar heldur ekki vera helstu ástæðu loftmengunarinnar í Delhi. Sérfræðingar telji þá venju að brenna gróðurleifar í lok uppskerutímans hafa meira með mengunina að gera. Bruni uppskeruleifa og flugeldar sem kveikt var í vegna Diwali-hátíðarhaldanna í síðustu viku hafi þannig myndað banvænan kokteill koltvísýrings, nituroxíðs og súlfoxíðs.

Hafa heilbrigðisyfirvöld hvatt fólk til að halda sig innan dyra og forðast líkamlega áreynslu. Skólar eru sömuleiðis lokaðir út morgundaginn hið minnsta og raunar talið að lokunin verði framlengd út vikuna.

Kejriwal fullyrðir að með umferðarkvótakerfinu muni bílum á götum borgarinnar fækka um hundruð þúsunda, en þeir sem gerast brotlegir við bannið þurfa að greiða 4.000 rúpíur í sekt (tæpar 7.000 kr.).

Hæstiréttur Indlands hefur hins vegar nú fyrirskipað stjórnvöldum í Delhi að reiða fram sannanir þess efnis að bílakvótinn virki. Hann hefur sömuleiðis gert ráðherrum nágrannaríkjanna Punjab, Haryana og Uttar Pradesh þar sem uppskeruleifar eru brenndar að svara því hvernig taka megi á þeim tiltekna vanda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert