Obama varar demókrata við að vera of „byltingakennda“

Barack Obama, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, hefur enn ekki lýst yfir stuðningi …
Barack Obama, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, hefur enn ekki lýst yfir stuðningi við neinn frambjóðendanna. AFP

Barack Obama, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, varar þá frambjóðendur sem nú sækjast eftir forsetaútnefningu Demókrataflokksins við að vera of „byltingakennda“. BBC greinir frá.

Obama, sem hefur enn ekki lýst yfir stuðningi við neinn frambjóðendanna, lét þessi orð falla á fjáröflunarsamkomu. Þá varaði hann frambjóðendurnar við að leggja áherslu á stefnumál sem ekki eigi sér „stoð í veruleikanum“.

Sagði hann demókrata eiga á hættu að gera kjósendur sér afhuga fari stefna þeirra of langt til vinstri, þar sem flestir kjósendur hafi engan áhuga á að „jafna kerfið við jörðu“.

18 frambjóðendur sækjast nú eftir útnefningu Demókrataflokksins vegna forsetakosninganna á næsta ári. Þeir sem mest fylgis njóta eru Joe Biden, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna, öldungadeildaþingmennirnir Elizabeth Warren og Bernie Sanders og Pete Buttigieg, sem er borgarstjóri South Bend í Indiana.

Obama nefndi enga frambjóðendur á nafn í ræðu sinni, en virtist þess í dag vera að hvetja frambjóðendurna til beina athygli sinni að óskum kjósenda varðandi heilbrigðis- og innflytjendamál.

Þeir kjósendur, sagði hann, deila ekki endilega skoðunum með „ákveðnum vinstrisinnuðum Twitterstraumum“ eða „aðgerðasinnavæng flokks okkar“.

Fjórir mánuðir eru nú þar til demókratar halda forkosningar sínar og eru þetta beinustu afskipti Obama af forkosningunum til þessa.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert