Fékk sér pizzu með Beatrice

Andrew prins var í löngu viðtali á BBC í gærkvöldi.
Andrew prins var í löngu viðtali á BBC í gærkvöldi. AFP

Andrew Bretaprins neitar því staðfastlega að hafa haft kynmök við unglingsstúlku sem segist hafa verið neydd til þess að sofa hjá prinsinum af bandaríska barnaníðingnum Jeffrey Epstein.

Prinsinn var gestur Newsnight-þáttarins á BBC í gærkvöldi og sagði Andrew í þættinum, sem var klukkutími að lengd, að sig reki ekki minni til að hafa nokkurn tíma hitt Virginu Roberts.

Virg­inia Giuf­fre, sem áður hét Virg­inia Roberts, bar vitni um það í ákæru gegn Ep­stein og vin­konu hans árið 2016 að hún hafi haft kyn­mök við Andrew þegar hún var á barns­aldri en vitn­is­b­urðinum hef­ur verið ákaft neitað af prins­in­um og kon­ungs­fjöl­skyld­unni. 

Andrew segist hafa brugðist konungsfjölskyldunni með sambandinu við Epstein eftir að hann var dæmdur fyrir vændiskaup. Hann segist aftur á móti telja að hann hafi ekki eyðilagt orðspor móður sinnar, Elísabetar Englandsdrottningar. 

Andrew segir í viðtalinu að hann geti fullvissað Emily Maitlis, þáttastjórndanda BBC, um að þetta hafi aldrei gerst, spurður út í ásakanir Giuffre um að hann hafi haft mök við hana þrisvar sinnum. 

Skjáskot af Mail on Sunday

Hann segist hafa verið heima með börnum sínum kvöldið í mars 2001 sem Giuffre segir að þau hafi haft mök. Áður hafi hann farið með dóttur sína, Beatrice, á pizzastað skammt fyrir utan London.

„Þennan dag, sem okkur skilst að hafi verið 10. mars var ég heima. Ég var með börnunum og ég hafði farið með Beatrice á Pizza Express í Woking í veislu og mig minnir að það hafi verið um fjögur eða fimm síðdegis. Og þar sem hertogaynjan var að heiman, og við erum með þá reglu í fjölskyldunni að þegar einhver annað okkar er ekki heima þá er hitt þar. Ég var í leyfi á þessum tíma hjá konunglega sjóhernum og þess vegna var ég heima,“ sagði Andrew í viðtalinu.

Þegar hann er spurður hvernig standi á því að hann muni þetta svo nákvæmlega, að hafa farið á Pizza Express í afmæli svaraði Andew því til að það hafi verið afar óvenjulegt fyrir hann að fara á Pizza Express í Woking. Hann hafi aðeins komið nokkrum sinnum til Woking áður og þess vegna muni hann þetta svo greinilega.

Lítið um samviskubit og samkennd

Fátt annað er á forsíðum bresku blaðanna í dag en viðtalið og ýmsir hafa á orði hvað lítið fari fyrir iðrun prinsins.

„Ekki minnst einu orði á samviskubit,“ segir í fyrirsögn Mail on Sunday. Svipuð fyrirsögn er í Sunday Mirror: „No sweat... and no regret".

Guardian segir að prinsinn virðist ekki gera sér neina grein fyrir alvarleika málsins. Hann hafi hlegið og brosað ítrekað í viðtalinu. Engin eftirsjá né virðist hann hafa áhyggjur af þolendum níðingsverka Epsteins. 

Andrew, sem er 59 ára gamall og áttundi í krúnuröðinni, hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir tengsl sín við auðkýfinginn Epstein sem framdi sjálfsvíg í fangaklefa í ágúst. 

Epstein var í gæsluvarðhaldi þegar hann tók eigið líf en hann beið réttarhalda þar sem hann var ákærður fyrir að hafa selt barnungar stúlkur í vændi. Epstein játaði árið 2008 að hafa selt stúlku, sem var á barnsaldri, í vændi og sat 13 mánuði í fangelsi áður en hann var látinn laus til reynslu. Þrátt fyrir það hélt Andrew sambandi við hann og bauð honum jafnvel í Windsor kastala. 

Viðtalið var birt í gærkvöldi en það var tekið upp í Buckingham-höll á fimmudag. Þetta er í fyrsta skipti sem Andrew svarar spurningum í viðtali um samband hans við Epstein. Árið 2015 kom hann fram opinberlega í Davos í Sviss og neitaði sök.

Efast um ljósmynd

Hann hefur ítrekað haldið því fram að hann væri ekki náinn vinur Epstein en á mynd sem til er af honum með handlegginn utan um Roberts, sem var 17 ára á þeim tíma. Á bak við þau sést í vin Epstein, Ghislaine Maxwell. Andrew sagði í viðtalinu að hann efaðist um áreiðanleika myndarinnar og lýsti henni sem mynd af mynd af mynd (a photograph of a photograph of a photograph).

„Ég trúi ekki að myndin hafi verið tekin á þann hátt eins og ýjað er að,“ sagði hann og að hans sögn hefur hann aldrei komið á efri hæð íbúðar Maxwell í London þar sem myndin er tekin.

Enginn getur sannað hvenær eða hvort myndin hafi verið tekin við þær aðstæður. Hann reki ekki minni til þess að þessi mynd hafi verið tekin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert