Fundu ekkert asbest í barnapúðrinu

Barnapúður frá Johnson & Johnson. Forsvarsmenn lyfjafyrirtækisins segja engar asbest …
Barnapúður frá Johnson & Johnson. Forsvarsmenn lyfjafyrirtækisins segja engar asbest leifar hafa fundist í púðrinu í nýjum rannsóknum óháðra rannsókarstofa. AFP

Forsvarsmenn lyfjafyrirtækisins Johnson & Johnson flýttu sér í síðasta mánuði til að láta gera rannsóknir á barnapúðrinu sem fyrirtækið framleiðir, eftir að bandaríska lyfjaeftirlitið (FDA) fann leifar af asbest í brúsa af barnapúðri.

Greint var frá því lok síðasta mánaðar að John­son & John­son hefðu látið innkalla 33.000 flösk­ur af barna­púðri eftir að FDA tilkynnti um þennan fund, en innköllunin takmarkaðist við eina fram­leiðslu­lotu, núm­er 22318RB, sem fram­leidd var og fór í dreif­ingu og sölu í Banda­ríkj­un­um á síðasta ári.

11 dögum síðar tilkynnti fyrirtækið svo við athugun óháðra rannsóknarstofa hefðu engar slíkar leifar fundist í púðrinu.

Wall Street Journal greinir frá og segir niðurstöður rannsóknarinnar þó hafa verið flóknari en lyfjafyrirtækið greindi frá, en forsvarsmenn Johnson & Johnson lögðu mikla áherslu á að klára rannsóknina sem fyrst.

Wall Street Journal segir að rannsóknarfyrirtækið sem lyfjafyrirtækið fékk til verksins hefði breytt sínu hefðbundna vinnsluferli til að mæta kröfu Johnson & Johnson að því er fram kemur í skýrslunni og var því einnig notað við rannsóknina tilraunaherbergi sem venjulega er notað til að rannsaka leifar af byssupúðri í glæparannsóknum. Við upphaflegu rannsóknina fann rannsóknarstofan leifar af asbesti í sumum sýnanna, en ákvarðaði síðar að um væri að ræða mengun frá loftræstikerfi herbergisins. Við endurprófanir í rannsóknarstofunni sem venjulega er notuð til slíkra verka greindist ekkert asbest.

Annað rannsóknarfyrirtæki sem einnig var fengið til að rannsaka barnapúðrið greindi Johnson & Johnson frá því að engar leifar af asbesti hefðu fundist við forkönnun, en rannsókninni var þó ekki að fullu lokið þegar lyfjafyrirtækið tilkynnti að engar asbestleifar hefðu greinst.

Forsvarsmenn Johnson og Johnson segja málið enn vera í skoðun og sýni verði áfram tekin við framleiðslu barnapúðursins.

Um 16.000 þúsund kon­ur hafa höfðað mál á hend­ur hrein­læt­is- og lækn­inga­vöru­fram­leiðand­an­um þar sem þær telja að talkúm í barna­púðri frá fyr­ir­tæk­inu hafi valdið þeim krabba­meini. Dóm­ar hafa fallið í nokkr­um mál­anna og skaðabæt­ur verið greidd­ar í ein­hverj­um þeirra. Kon­urn­ar höfðu notað barna­púðrið, eða annað sam­bæri­legt púður frá fyr­ir­tæk­inu, í kring­um kyn­fær­in á sér í hrein­læt­is­skyni. Sjálft barna­púðrið hef­ur hins veg­ar verið notað ára­tug­um sam­an á húðfell­ing­ar barna og á bleyju­svæði til að koma í veg fyr­ir roða og út­brot.

Í um­fjöll­un Reu­ters-frétta­stof­unn­ar á síðasta ári var full­yrt að stjórn­end­ur John­son & John­son hafi vitað að asbest­mengað talkúm hafi verið notað í barna­púðrið ára­tug­um sam­an. Og að reynt hafi verið að hylma yfir það.

For­svars­menn lyfjafyrritækisins full­yrða hins vegar að talkúmið sem notað er í vör­ur þeirra sé ekki asbest­mengað. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert