„Óglatt“ og „sorgmædd“ eftir kosningaeftirlit

Kjörkassar tæmdir í Hvíta-Rússlandi um helgina.
Kjörkassar tæmdir í Hvíta-Rússlandi um helgina. Ljósmynd/Aðsend

„Það er óhætt að segja að þetta sé harðorðasta yfirlýsingin frá ÖSE og ODHIR í mjög langan tíma. Það er augljóst að mjög margt er að í ferlinu öllu,“ segir Bryndís Haraldsdóttir þingmaður í samtali við mbl.is. Hún var við kosningaeftirlit í nýafstöðnum kosningum í Hvíta-Rússlandi sem full­trúi Íslands fyr­ir Örygg­is- og sam­vinnu­stofn­un­ Evr­ópu, ÖSE.

Á yfirborðinu líta kosningarnar ágætlega út þegar kjörstaðir eru heimsóttir, kjörkassarnir skoðaðir og þeir virðast vera innsiglaðir og kjörklefar lokaðir, að sögn Bryndísar. Stórt spurningamerki er sett við að kosningaþáttakan fyrir fram var 30%. 

Bryndís Haraldsóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Bryndís Haraldsóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

„Ég gat ekki séð neina sönnun þess þegar farið var yfir kjörskrá að svo margir hefðu mætt á kjörstað. Við töldum um 5-10% á kjörskránni og það er augljóst að eitthvað var unnið með þær tölur,“ segir Bryndís. Sömu sögu var að segja hjá öðrum sem sinntu eftirliti á öðrum kjörstöðum. Þegar leið á kjördag var passað að sýna eftirlitsaðilum ekki of mikið af kjörskránni og skyndilega var kjörskráin orðin varin persónuvernd. 

Þegar kom að talningu atkvæða í gær var eftirlitsaðilum haldið í talsverðri fjarlægð frá talningunni. „Það var mjög skrýtið. Við heyrðum aldrei upphátt hvað talningamenn sögðu heldur gekk stjórnandi á milli með bókina sína og skráði. Ég gat ekki séð annað á mínum kjörstað en að þeim hefði verið sagt fyrir verkum hvaða tölur þeir ættu að segja,“ segir Bryndís. Á sama tíma horfðu eftirlitsaðilar á misstóra bunka af kjörseðlum og sama tala var sögð að næði yfir þá. 

Einræði skárra en falskt lýðræði

„Þetta var mjög óþægilegt. Á þessum tíma varð mér hreinlega óglatt og ég varð sorgmædd. Ég sagði þetta við túlkinn minn og hún spurði mig á móti hvernig ég héldi að henni liði. Ég held hreinlega að einræði sé skárra en falskt lýðræði,“ segir Bryndís. 

Landið er oft nefnt síðasta einræðisríkið í Evrópu sökum valda forsetans Alexander Lukasjenko, sem hefur verið við völd í 25 ár. Íbúar hafa almennt ekki mikla tiltrú á kosningum enda hafa þær oftsinnis verið dæmdar ólýðræðislegar af eftirlitsaðilum. 

Alexander Lukashenko, forseti Hvíta-Rússlands.
Alexander Lukashenko, forseti Hvíta-Rússlands. AFP

Í kosn­ing­un­um var kosið um 110 sæti í neðri deild þings­ins og bauð þriðjung­ur þing­manna sig fram aft­ur. All­ir helstu leiðtog­ar stjórn­ar­and­stöðunn­ar og all­ir þing­menn henn­ar að frá­töld­um tveim­ur voru svipt­ir kjörgengi. Enginn úr stjórnarandstöðunni hlaut brautargengi og heldur því sama sagan áfram.    

Ein spurning á blaðamannafundi

Á blaðamannafundinum sem ÖSE stóð fyrir eftir kosningarnar þar sem greint var frá frumniðurstöðunum kom ein spurning frá blaðamanni á öllum fundinum. „Þetta sýnir nákvæmlega hvernig fjölmiðlarnir virka þarna eða öllu heldur virka ekki,“ segir Bryndís.

„Ég veit það ekki. Auðvitað vonar maður það. Hvíta-Rússland er í evrópsku fjölskyldunni okkar og í þeim gilda ákveðnar reglur sem landið þarf að hlíta,“ segir hún spurð hvort hún sé vongóð um að breyting verði til batnaðar í Hvíta-Rússlandi. 



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert