„Rússneskur sigur“ í Hvíta-Rússlandi

Al­ex­and­er Lúka­sj­en­kó, forseti Hvíta-Rússlands, á kjörstað í gær.
Al­ex­and­er Lúka­sj­en­kó, forseti Hvíta-Rússlands, á kjörstað í gær. AFP

Flokkar hliðhollir Al­ex­and­er Lúka­sj­en­kó, forseta Hvíta-Rússlands, fengu öll 110 þingsætin í þingkosningunum í landinu sem fram fóru í gær. Stjórnmálaskýrendur segja að brögð hafi verið í tafli og að úrslitin séu ómarktæk.

Niðurstöður kosninganna voru opinberaðar í morgun. Áður höfðu fulltrúar flokka, sem andsnúnir eru forsetanum, tvö þingsæti. 

Lúka­sj­en­kó, sem stundum hefur verið kallaður „Síðasti einræðisherra Evrópu“ er 65 ára og hefur verið forseti Hvíta-Rússlands frá árinu 1994. Á þeim tíma hafa verið haldnar fjölmargar kosningar og hafa alþjóðlegir kosningaeftirlitsmenn gert athugasemdir við framkvæmd og niðurstöður flestra þeirra. Forsetakosningar verða í landinu á næsta ári og Lúka­sj­en­kó tilkynnti í gær, þegar hann gekk að kjörborðinu, að hann myndi bjóða sig fram enn og aftur. 

Frá kjörstað í Hvíta-Rússlandi í gær.
Frá kjörstað í Hvíta-Rússlandi í gær. AFP

Við það tækifæri sagðist hann vera meðvitaður um að vestræn ríki fylgdust með framgangi kosninganna, en að Hvít-Rússar hefðu síðasta orðið. „Við boðum til þessara kosninga í okkar landi fyrir okkar fólk, til að bæta stöðuna og við höldum þær á þann þátt sem við skiljum.“

Yfirvöld í Hvíta-Rússlandi greindu frá því í morgun að kosningaþátttaka hefði verið 77% og að meira en 35% hefðu verið búin að kjósa fyrir fram. 

Fulltrúar mannréttindasamtaka, sem fylgdust með framkvæmd kosninganna í gær, gerðu m.a. athugasemd við að kosningaeftirlitsmönnum var vísað á dyr, þeim var meinað að taka myndir og aðgengi þeirra var heft. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert