SAS fækkar flugferðum til Hong Kong

SAS heldur uppi áætlunarflugi á milli Kaupmannahafnar og Hong Kong …
SAS heldur uppi áætlunarflugi á milli Kaupmannahafnar og Hong Kong fimm sinnum í viku. AFP

Skandinavíska flugfélagið SAS hefur tekið ákvörðun um að fækka flugferðum félagsins til Hong Kong vegna minnkandi eftirspurnar sem rakin er til þrálátra mótmæla þar í borg.

SAS heldur uppi áætlunarflugi á milli Kaupmannahafnar og Hong Kong fimm sinnum í viku, en ákveðið hefur verið að fækka flugferðum í fjórar í viku vegna minnkandi eftirspurnar í nóvembermánuði, eftir því sem fram kemur í yfirlýsingu flugfélagsins.

Fækkun er þó sögð vera tímabundin og áfram verður grannt fylgst með ástandinu. Til stendur að fjölga ferðum á milli Kaupmannahafnar og Hong Kong aftur í kring um jól og áramót.

Fréttastofa AFP hafði af þessu tilefni samband við aðalsamkeppnisaðila SAS á flugleiðinni frá Skandinavíu til Hong Kong, Finnair, sem flýgur á milli Helsinki og Hong Kong tvisvar á dag. Samkvæmt svari Finnair stendur ekki til að fækka ferðum félagsins á milli borganna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert